Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Það er auðvitað miður, þegar umræðan er orðin svona fjörug um þetta mál, að þá skulum við vera komin í 3. umr. og inn í þær reglur sem um hana gilda sem gefa okkur gríðarlega takmarkaðan tíma. Ég ætla því ekki að vera með málalengingar hér. Í síðari ræðu minni hér áðan talaði ég um umsögn sem margir aðrir þingmenn hafa líka tekið til umræðu í kvöld, umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins. Það er líka áhugavert að þetta var alls ekki eina umsögnin sem barst, það var önnur umsögn sem barst frá Viðskiptaráði Íslands. Það sem er áhugavert er að hún var sama efnis, svo gott sem. Ég ætla að fá að grípa aðeins niður í umsögnina, með leyfi forseta:

„Breytingin er snýr að lögum um hlutafélög felur í sér að félögum með hluti til viðskipta á skipulegum markaði er heimilað að ákveða í samþykktum sínum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan tiltekins frests fyrir fundinn.

Umræddri breytingu er ætlað að koma til móts við félög sem halda fundi sína rafrænt (eingöngu eða að hluta til), og eru að reyna að koma upplýsingum á framfæri við hluthafa nægilega tímanlega fyrir fundinn. Greinargerðin fjallar um að þetta eigi sér í lagi við í tilfellum félaga þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði og þegar um er að ræða hluthafa sem búsettir eru erlendis og taka þátt á fundinum í gegnum rafræna miðla.

Viðskiptaráð telur breytinguna af hinu góða og að eðlilegt sé að afmarka einhvern tíma til undirbúnings til að gera félögum kleift að koma upplýsingum á framfæri og undirbúa rafræna fundi. Þó telur ráðið ekki rétt að takmarka þessa breytingu við skráð félög. Rafrænir hluthafafundir eru haldnir ýmist í skráðum félögum og óskráðum, en heimild til rafrænna funda byggir á 80. gr. a. í lögum um hlutafélög, og er ekki takmörkuð við skráð félög. Þörfin fyrir þetta úrræði er því til staðar óháð því hvort félagið er skráð á markað eða ekki.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga með tilliti til ofangreindra athugasemda.“

Það er tvennt sem er fyrst og fremst áhugavert við þessa umsögn Viðskiptaráðs Íslands. Það er annars vegar það að það er sami þátturinn sem er gagnrýndur og í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins, þ.e. að engin rök séu til þess að binda þetta við skráð félög. Líkt og ég minntist á hér áðan þá er ekkert tekið á þessu í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem ákvað að taka ekkert tillit til þessara sjónarmiða og tók ekki upp skýrt orðaðar breytingartillögur sem komu fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja og Samtaka atvinnulífsins þar sem lagt var til orðalag á breytingunum sem var ótrúlega lítið frávik frá því sem er í frumvarpinu nú þegar, í raun bara verið að fella brott nokkur orð sem fela þá kröfu í sér að um skráð félag sé að ræða.

Það sem er líka áhugavert við þessa umsögn er að þarna koma fram meiri röksemdir fyrir þessari heimild til að krefjast þessa frests, tilkynningarfrests um að maður ætli að mæta á fund, í raun ítarlegri rökstuðningur en kemur fram í frumvarpinu sjálfu eða í nefndaráliti meiri hlutans, og það er ekkert í þessum röksemdum sem útskýrir hvers vegna það er talið rétt að binda þetta við skráð félög. Mig langar því aðeins að lesa aftur svör meiri hlutans við þessum athugasemdum sem komu frá Viðskiptaráði Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins.

Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir, með leyfi forseta:

„Nefndinni barst minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem fram kemur afstaða þess til umsagna sem bárust nefndinni. Meðal annars bendir ráðuneytið á að heimildin sem lögð er til í 1. gr. yrði meira takmarkandi fyrir hluthafa í hlutafélögum almennt þar sem heimildin geti takmarkað möguleika hluthafa til að nýta réttindi sín í félagi á hluthafafundi. Meiri hlutinn tekur undir framangreint sjónarmið og telur ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu að þessu leyti.“

Þetta er enginn rökstuðningur. Það er nákvæmlega enginn rökstuðningur í þessum orðum. Það er ekkert þarna sem skýrir hvers vegna meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að gera breytingar í samræmi við þær athugasemdir sem bárust frá þessum aðilum sem ættu að vita hvað þeir eru að tala um.