Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[14:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þá erum við komin að 3. umr. um eingreiðslu til öryrkja, 60.300 kr. nú í desember, desemberuppbót til öryrkja sem er ekki hægt að þakka nógsamlega, það er bara þannig. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að ef ríkisstjórnin tæki þessi mál ekki í fangið þá yrðu þau aldrei að veruleika. Þannig að þótt við séum að hártogast hér og reyna að vinna fyrir okkar fólk í allar áttir þá er það ekki fyrr en þau gefa grænt ljós á það í ríkisstjórninni að okkur verður ágengt. En það er okkar að halda áfram að berjast og reyna að láta þau sjá ljósið því að það er víst ekki hægt að vita allt um allt hvað eina. En það verður að segjast eins og er, að fulltrúar Flokks fólksins, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, erum þeir einstaklingar á þingi sem ég býst við að þekki þetta almannatryggingakerfi hvað best. Þetta er kerfi sem við höfum sjálf þurft að lifa á og búa við og það hefði verið ómetanlegt að fá í desember svona jólaglaðning. Þó svo að bágindin séu hjá þessum þjóðfélagshópi jafn mikil allan ársins hring þá einhvern veginn lítur maður öðruvísi á aðventuna og jólahátíðina og vildi gjarnan geta gert pínulítið betur við sig og börnin sín en maður sættir sig við að geta alls ekki gert alla hina mánuði ársins.

Hins vegar verður að segjast eins og er að ég kom hér líka með breytingartillögu um það að eldra fólk sem er með óskertan lífeyri frá almannatryggingum, hefur í rauninni ekkert annað, fengi sambærilega upphæð því að nákvæmlega þessi hópur á ekki síður um sárt að binda, og býr í neyð, en þeir sem fá þessa desemberuppbót. Einhverra hluta vegna er búið að vera að reyna að telja mér trú um að það sé hálfgerður ómöguleiki að fá upplýsingar um það hjá Tryggingastofnun hvað þessir einstaklingar eru margir og hvernig þeim er skipt niður og allt það. Þess vegna sé ofboðslega erfitt að samþykkja tillögu Flokks fólksins um 60.300 kr. til fátækustu ellilífeyrisþeganna. Ég var hins vegar að fá svar frá Tryggingastofnun við spurningu sem við þingflokkurinn sendum í morgun. Svarið er komið og ég ætla að vísa hér í það: Á árinu 2022 er útlit fyrir að 2.080 hefðbundnir ellilífeyrisþegar hafi verið með tekjur frá öðrum en TR, undir almennum tekjumörkum, sem eru undir 300.000 kr. á mánuði, og sérstökum frítekjumörkum þannig að atvinnutekjur þeirra eru undir 2,4 millj. kr. á ári. Að meðaltali voru þeir óskertir í rúma 11 mánuði og af þessum hópi einstaklinga eru 1.032 þeirra fyrrverandi öryrkjar. Helmingurinn af þessum ríflega 2.000 einstaklingum, sem búa hér við kröppustu kjörin, í sárustu neyð, eru fyrrverandi öryrkjar sem gengu yfir þá línu í lífinu að verða 67 ára gamlir og teljast þess vegna ekki öryrkjar lengur heldur ellilífeyrisþegar.

Þetta fólk er að missa margt hvað þúsundir króna af því sem það áður hafði vegna þess að það hafði aldurstengda örorkuuppbót. Það verður líka að taka fram þegar er verið að ræða það að það sé erfitt að sjá þetta og hitt með eldri borgara þá er það náttúrlega hártogun og ósatt, það er enginn vandi, þetta er bara mannanna verk og það er bara spyrja. Sá spyr sem ekki veit og svörin liggja skýr fyrir hjá Tryggingastofnun, það er ekki flóknara en það, virðulegi forseti. Flestir þessara eldri borgara eru einir vegna þess að gift eldra fólk hlýtur skerðingu af því að vera saman. Það er bara svoleiðis. Þannig hefur verið farið með þau í áraraðir. Þau eru skert fyrir það að vera gift, skert fyrir að hafa haldið hópinn alla ævina.

Eins og ég segi er gott að við skulum gera þetta fyrir öryrkjana okkar um leið og ég er jafn sorgmædd yfir því að við skulum jaðarsetja þennan fámenna hóp eldra fólks. Í breytingartillögunni töluðum við um 6.000 eldri borgara. Við töluðum um að breytingartillagan okkar ætti að lúta að 6.000 eldri borgurum, það væri um 360 millj. kr. Nú erum við búin að smætta þetta niður í þetta svar Tryggingastofnunar, í rúmlega 2.000 einstaklinga sem eiga virkilega um sárt að binda. Það ætti ekki að setja ríkissjóð á hliðina þó að þeir tækju utan um þennan hóp. Svarið liggur hér fyrir og ætti ekki að vera erfitt að tala um það og beygja af því sem áður hefur verið kallaður ómöguleiki í því að koma til móts við þennan hóp fyrir jólin. Það að tala alltaf um heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum, heildarendurskoðun á þessu og heildarendurskoðun á hinu — það er algjörlega frábært að vera með heildarendurskoðun ef hún skilar einhverju fyrir hópinn sem er verið að endurskoða en sjaldnast eru það þeir sem málefnið snýr að og er um sem fá að koma að því. Eins og Öryrkjabandalagið hefur sagt og hefur verið kjörorð þeirra ætíð: Ekkert um okkur án okkar. Ég ætla því sannarlega að vona það að hópurinn sem málið snýst um hafi víðtæka aðkomu að þessari heildarendurskoðun sem í engu mun hjálpa þessu eldra fólki sem er með bágust kjörin núna fyrir jólin, í engu, endurskoðun sem ég veit ekkert hvenær lýkur eða hvernig, engan veginn.

Ég segi enn og aftur: Hér erum við að glíma við verðbólgudrauginn sem aldrei fyrr. Hér erum við með blússandi vexti, hér hefur matarkarfan hækkað upp úr öllum rjáfrum. Hér hefur græðgisvæðingin algerlega fengið að blómstra og bitna verst og mest á þeim sem eiga minnst. Að hugsa sér að öryrki á almennum leigumarkaði sem var að greiða 250.000 kr. í húsaleigu skuli fá það í andlitið að nú eigi að hækka leiguna um 75.000 kr. á mánuði frá 1. febrúar næstkomandi. Við þennan einstakling er sagt: Þú hefur til 1. janúar að ákveða hvort þú vilt ekki bara vera með okkur áfram og endurnýja leigusamninginn. Það er löngu, löngu tímabært, og Flokkur fólksins er með breytingartillögu um það við húsnæðismálin sem eru að koma hingað inn í þingið, að setja þak á leiguna, að miða við hærri vikmörk Seðlabankans sem eru 4%. Það er algerlega ótækt að þurfa að horfast í augu við það að þessi félög — það er búið að græðgisvæða fasteignirnar okkar hérna. Það eru einstaklingar og lögaðilar sem hafa fengið að kaupa upp í kippum þúsundir íbúða, á fimmta þúsund íbúða frá Íbúðalánasjóði, eignir þeirra fjölskyldna sem voru bornar í kippum út á götu eftir síðasta efnahagshrun í boði hinnar norrænu velferðarstjórnar sem þá ríkti. Þessar eignir hafa verið að ganga kaupum og sölum. Úr þeim er búið að byggja mikla blokk og verið að reyna að græða á tá og fingri á fólki sem sumt hvert á hvergi höfði sínu að halla. Þessi leigumarkaður hefur gengið algerlega alvopnaður um eins og í villta vestrinu og engum böndum verið á hann komið, engum. Ég gat t.d. ekki orðið vör við það í þessum pakka ríkisstjórnarinnar svokallaða sem átti að höggva á alla hnúta hvað lýtur að kjarasamningaviðræðum að það væri verið að taka húsnæðislið út úr vísitölu til að lækka verðbólgu. Ég gat ekki séð það væri verið að hjóla í verðtrygginguna. Ég gat ekki séð neitt um þak á okurleigumarkaðinn sem er verið að glíma við í dag.

Við skulum átta okkur á því að einstaklingarnir sem við erum að tala um hér, þeir sem eru að fá 60.300 kr. í desemberuppbót, í eingreiðslu nú í desember, öryrkjarnir okkar, eru að fá undir 300.000 kr. á mánuði og eru að borga leigu eins og þessi fullorðna kona, 250.000 og það á að hækka hana upp í 325.000. Þetta er ómöguleiki. Og hvernig dettur nokkrum í hug að snúa blinda auganu að þessum raunveruleika? Hvernig dettur nokkrum stjórnvöldum í hug að loka augunum fyrir vanlíðan þessa fólks? Það eru aum stjórnvöld sem koma svona fram við þegna sína og okkur ber skylda hér til að tryggja fólkinu okkar fæði, klæði og húsnæði. Það er ekki nóg að státa sig af því að hér sé meðaltalið frábært, að að meðaltali hafi allir það svo rosalega gott. Það er ekki nóg að státa sig af því að hér sé jöfnuður svo mikill og allt það. Það verður að horfast í augu við þann hluta af samfélaginu sem er raunverulega fastur í sárafátækt, hnepptur í fátæktargildru sem hann getur ekki brotist úr, því að vei þér ef þú ætlar að reyna það, þá verður þér refsað. Þú skalt skertur, keðjuverkandi skertur, skertur niður úr öllum rjáfrum.

Mér er mikið niðri fyrir þegar ég er að tala um að þetta eru smáaurar í stóra samhenginu. Þetta eru smáaurar sem Flokkur fólksins er að biðja um. Við göngum hér bænaveginn og biðjum um ölmusu fyrir þá sem hafa það bágast í samfélaginu. Mér gæti ekki verið meira sama hvað það kallast, staðan er einfaldlega svona, virðulegi forseti. Skömm þeim sem loka augunum fyrir henni og ætla virkilega ekki að taka utan um hana. Það þýðir ekki að vera að koma með þetta í einhverjum smábarnaskrefum hér þegar neyðin er eins og raunveruleikinn er. Og nú spáir um 20 stiga frosti um næstu helgi. Hvað með fólkið sem á hvergi höfði sínu að halla? Hvað með fullorðna manninn sem ég var að lesa söguna af? Kona sendi mér sögu þar sem hún sér fullorðinn mann sitja upp við húsvegg undan Hagkaupsbyggingunni, bláan úr kulda, skjálfandi og titrandi en hann svaf þar samt. Hún vakti hann og spurði hvort hún gæti gert eitthvað fyrir hann. Hann mundi ekki einu sinni eftir því að hann var svangur og hafði ugglaust ekki fengið að borða í marga daga. Það eina sem hann gat sagt var: Mér er svo kalt. Þvílíkt samfélag, þvílík smán, þvílík öfugmæli að tala um jöfnuð og þvílík öfugmæli að tala um að meðaltali hafi það allir gott. Ég býst við því að ef launin mín hefðu verið sett við félagsbæturnar hjá þessum manni sem átti svona bágt myndum við teljast hafa það að meðaltali gott. Launin okkar hefðu sjálfsagt slagað í hátt í milljón á mánuði fyrir hvort okkar.

Þetta er fyrirlitlegt, vægast sagt, fyrirlitlegt að maður skuli vera fimmta árið í röð að koma hér upp og berjast fyrir því sem ætti að vera svo augljóst, það ætti engum að vera dulið. Ég hélt að ég væri lögblindi einstaklingurinn hér á þingi en ég er farin að halda að það sé þó skárra að vera lögblindur en staurblindur og gera það viljandi að snúa blinda auganu að þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda. Þetta eru svívirðileg stjórnvöld, virðulegi forseti, sem koma svona fram, svívirðileg. Ég á engin önnur orð.