Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:06]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir áhrifaríka ræðu sína hér þar sem hún fjallaði um nokkur málefni sem varða almannatryggingakerfið. Til að demba mér beint í þetta þá er hér verið að tala um endurskoðun á almannatryggingakerfi sem hefur farið fram á þessu kjörtímabili og mun halda áfram. Að mínu mati eru þessar breytingar góðar, jákvæðar, skref í rétta átt, vissulega, en mér finnst þær ekki ganga nógu langt. Til dæmis með eingreiðsluna sem við erum að ræða núna í 3. umr. sem er 60.300 kr. sem er vissulega mikill sigur en bara öryrkjar fá þá greiðslu. Ég er sammála hv. þingmanni og flokki hennar um að þeir verst settu í samfélaginu ættu öll að fá 60.300 kr. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson benti meira að segja á þetta um daginn í 2. umr. um þetta frumvarp, að það ætti bara að hækka örorkubætur til að mynda um 60.300 kr. á mánuði og hafa það alltaf sem fastan lið.

En það sem ég ætla að spyrja hv. þm. Ingu Sæland út í sérstaklega er: Finnst hv. þingmanni boðlegt að vera í einhverju kappi við að afgreiða þessa eingreiðslu núna tvö ár í röð á lokametrunum í fjárlögum? Og við erum að skilja eftir stóran hóp sem þarf á þessum pening að halda í einhverri óvissu og þau þurfa að reiða sig á að samningaviðræður milli þingmanna gangi vel til þess að þau geti fengið að njóta jólanna án þess að hafa of miklar fjárhagsáhyggjur. Ætti þetta ekki að vera fastur liður í fjárlögum í stað þess að henda þessu alltaf inn á síðustu mínútunni og við vitum ekki hvort þetta fer í gegnum velferðarnefnd, hvort þetta fer í gegnum bandorminn? Hvernig er unnt að bæta þetta ferli að mati hv. þingmanns?