Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og þarna kom hún inn á ótrúlega góðan punkt. Ég komst í skýrslu sem var gerð í Bretlandi um lífslíkur þeirra sem eru fátækari og þeirra sem hafa það gott. Þegar fólk var komið á eftirlaunaaldur þá voru sex eða sjö ár farin af lífslíkum þeirra sem höfðu það verst, hjá fátækasta fólkinu. Það sem við erum núna að berjast fyrir, þessum fátækustu í ellilífeyriskerfinu, að vegna stöðu þeirra — ég hjó nefnilega eftir því og það er svo furðulegt að menn benda allt í einu á það upp úr þurru og segja: Ja, ef við borgum öllu þessu fólki, 4.000–5.000 manns, þá er þarna hellingur sem hefur það svo gott, á ríkan maka. En mér gæti ekki verið meira sama þó að tíu í þessum hópi ættu ríkan maka, það hefur ekkert með fjárhag viðkomandi að gera, af því að ég veit að hinir, 99%, hafa það skítt og þurfa á þessu að halda. Og í hvað myndi þetta fólk nota þessa peninga? Ég gæti ímyndað mér að það væri að kaupa sér lyf, kaupa sér mat. Ég veit um einstaklinga í þessum hóp sem eru hættir að fara í sjúkraþjálfun. Hvar endar það ef þú getur ekki farið í sjúkraþjálfun? Það endar í dýrasta úrræði heilbrigðiskerfisins; inni á sjúkrahúsi, 200.000 kr. á sólarhring. Er það lausn? Á ekki frekar að sjá til þess að viðkomandi hafi 2.000 kr. eða semja hreinlega við sjúkraþjálfara þannig að það þurfi ekki að borga 2.000 kr. aukalega fyrir hvern tíma? Það eru svona lausnir, einfaldar lausnir, sem spara ríkinu stórfé en því miður, þeir vilja það ekki. Einhverra hluta vegna vilja þeir ekki sjá það.