Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Í gær skrifuðu VR og Landssamband íslenskra verslunarmanna undir kjarasamning við Félag atvinnurekenda. Það vakti sérstaka athygli að samningsaðilar undirrituðu bókun þar sem kallað er eftir því að stjórnvöld ráðist í vinnu við að afnema og lækka tolla í þágu neytenda. Lækkun tolla er ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega, segir í þessari sérstöku bókun. Að mati samningsaðila væri góð byrjun að afnema tolla sem vernda enga hefðbundna innlenda landbúnaðarframleiðslu. Ég vil taka undir þetta og það eru einmitt þessi sjónarmið sem lágu að baki þegar ég lagði fram breytingartillögu við fjárlagabandorm ríkisstjórnarinnar þann 19. september um að tollur af frönskum kartöflum yrði afnuminn, hæsti prósentutollur á matvöru í íslensku tollskránni sem þó verndar enga innlenda framleiðslu lengur. Það virðist ekki vera meiri hluti fyrir þeirri tillögu hér á Alþingi en ég og hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, höfum hins vegar lagt fram sameiginlega breytingartillögu um að tollurinn verði lækkaður niður í 46% til samræmis við þann toll sem sömu vörur bera samkvæmt fríverslunarsamningum Íslands við Evrópusambandið og Kanada. Þetta mun ekki hafa mikil áhrif á verðlagningu en með þessu erum við þó að liðka fyrir auknu vöruúrvali í þágu neytenda og fyrirtækja og senda mjög mikilvæg skilaboð. Ef breytingin nær fram að ganga og verður samþykkt á Alþingi mun nefnilega 76% tollurinn á frönskum kartöflum, þetta Íslandsmet í tollheimtu, heyra sögunni til og það er mikilvægt skref fyrir neytendur og fyrir okkur hér inni sem styðjum frjáls alþjóðaviðskipti. En lífið snýst ekki bara um franskar kartöflur. Ég lofa því að við í Samfylkingunni munum ekki láta staðar numið hér heldur beita okkur áfram af fullum þunga fyrir lækkun og afnámi tolla í þágu neytenda á Íslandi.