Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er samt einhver hringrásarvitleysa, finnst mér, í gangi hérna. Við sitjum hér dagana langa og reynum að styðja við bændur með svona smá stuðningi í gegnum síðasta árið í öllum þeim áföllum sem bændur hafa orðið fyrir. Síðan er árið klárað á því að samþykkja frumvarp sem eykur kostnað meðalkúabús um 150.000–200.000 kr. á ári. Við þekkjum það og ég fór yfir það í ræðu minni hér í tengslum við frumvarp umhverfisráðherra fyrr í dag að á flestum svæðum landsins eru bændur að fá til baka það skilagjald sem á þessa vöru er lagt. En vill hv. þingmaður þá, framsögumaður nefndarálits meiri hluta, meina að þetta séu bara beinlínis mistök í framlagningu málsins þar sem talað er um að þetta standi undir — með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er lagt til að úrvinnslugjald á umbúðir hækki vegna hærri tilkostnaðar við sérstaka söfnun.“

Þetta er söfnunin, ekki vinnslan. Miðað við þá tölu sem hv. þingmaður nefndi hér áðan þá virðist vera gert ráð fyrir því að varan sem unnin er úr þessu sé verðmætalaus. (Forseti hringir.) Ef raunkostnaðurinn er 120 kr. og verið að segja að 82 kr. sé lágt í því samhengi (Forseti hringir.) þá eru menn væntanlega ekki gera ráð fyrir neinum verðmætum sem út úr þessu koma.