Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2023 sem ég lagði fram á Alþingi þann 9. desember sl.

Á tímum mikillar verðbólgu og vaxtahækkana skiptir miklu að ríkisfjármálunum sé beitt með ábyrgum hætti í þágu alls almennings. Annars vegar þarf að kæla hagkerfið með aðhaldi og hins vegar þarf að verja tekjulægri heimili fyrir áhrifum verðbólgu og snarpra vaxtabreytinga. Þetta gerum við í gegnum velferðarkerfið. Ríkisstjórn Íslands virðist hafa fallið á báðum prófunum þegar hún kynnti frumvarp sitt til fjárlaga og fjárlagabandorminn hér í haust. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggjum fram sameiginlega breytingartillögu við þetta frumvarp á þskj. 801. Auk þess stöndum við hv. þm. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að sameiginlegri breytingartillögu um lækkun almenns tolls af frönskum kartöflum. Þetta er á þskj. 796 en um þá breytingartillögu mun ég fjalla í sérstakri ræðu hér seinna í dag.

Í breytingartillögu okkar í minni hlutanum er lögð áhersla á að verja almenning fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana, annars vegar með auknum stuðningi við skuldsett heimili með hækkun eigna skerðingarmarka í vaxtabótakerfinu um 50% og hins vegar með því að falla frá þeirri miklu hækkun krónutölugjalda sem ríkisstjórnin leggur til og ljóst er að kemur harðast niður á tekjulægri heimilum landsins. Við teljum þetta ekki vera rétta tímann fyrir slíka ofsahækkun á þessum krónutölugjöldum. Að auki leggjum við til ráðstafanir á tekjuhlið ríkisfjármálanna sem eru til þess fallnar að bæta afkomu ríkissjóðs, sporna gegn þenslu og verja jöfnuð í samfélaginu. Ég mun fara nánar yfir áherslur Samfylkingarinnar í þessum efnum hér á eftir en í sameiginlegri breytingartillögu okkar í minni hlutanum leggjum við áherslu á að fjármagnstekjuskattur hækki úr 22% í 25%. Þá vil ég vekja athygli á því að vegna frítekjumarka fjármagnstekna þá nær slík hækkun nær einvörðungu til tekjuhæstu 10% framteljenda.

Förum aðeins yfir stöðuna í efnahagsmálum. Greiðslubyrði íbúðalána hjá nýjum lántakendum hefur aukist að meðaltali um 13–14.000 kr. á mánuði frá ársbyrjun 2020 fram í ágúst 2022 eða um rúmlega 160.000 kr. á ári. Dreifingin er mjög misjöfn og hjá fjölda heimila hleypur aukin greiðslubyrði á mörgum tugum þúsunda á mánuði. Þetta er kostnaður sem bætist ofan á almennar verðlagshækkanir. Verðlagseftirlit ASÍ hefur áætlað að mánaðarleg útgjöld fjölskyldu með tvö börn sem býr í eigin húsnæði og er með 50 millj. kr. lán hafi hækkað um 128.607 kr. á síðastliðnu ári. Kaupmáttur hefur verið að rýrna núna á undanförnum mánuðum. Greiðslubyrði vegna húsnæðislána hefur þyngst og hlutfall þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað fer hækkandi. Auk þess fer ójöfnuður samkvæmt Gini-stuðlinum vaxandi um þessar mundir og það er áhyggjuefni ef okkur hér inni er umhugað um að verja tekjujöfnuðinn sem við hreykjum okkur oft af, tekjujöfnuðinn í alþjóðlegum samanburði. Þetta er tekjujöfnuður sem verkalýðshreyfingin hefur kannski fyrst og fremst náð fram með því að knýja fram krónutöluhækkanir og semja um þær við atvinnurekendur. Þetta er eitthvað sem aðilar vinnumarkaðarins eiga hrós skilið fyrir. En ef okkur í stjórnmálunum er mjög umhugað um að verja þennan tekjujöfnuð, þá verðum við að vera tilbúin að beita skattkerfinu markvisst til að jafna kjörin í samfélaginu. Nú er staðan þannig að ráðstöfunartekjur jukust þrisvar sinnum meira hjá tekjuhæstu 10% landsmanna í fyrra en hjá öðrum tekjuhópum. Fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á síðastliðnum tíu árum en atvinnutekjur hafa aukist um 53%. Taktu eftir þessu, hæstv. forseti. Fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á síðastliðnum tíu árum en atvinnutekjur hafa aukist um 53%. Þarna er ákveðin gliðnun milli launaþáttarins og fjármagnsins. Um leið rennur æ stærri hlutdeild þessara auknu fjármagnstekna til allra tekjuhæsta fólksins á Íslandi, 81% þeirra runnu til tekjuhæstu 10% í fyrra. Þetta er ekki til marks um að hér sé rekin efnahags- og skattastefna í þágu alls almennings í landinu.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er fjármögnun grunnþjónustu sniðinn frekar þröngur stakkur miðað við þá miklu þörf sem er uppi í hinum ýmsu málaflokkum. Auðvitað hefur verið farið vel yfir þetta í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, en auk þess virðist upplegg ríkisstjórnarinnar hér í haust hafa verið með þeim hætti að það var stefnt að því að stuðningur við barnafólk og skuldsett heimili í gegnum barnabótakerfið og vaxtabótakerfið yrði látinn rýrna að raunvirði. Ofan á þessa útreið sem velferðarkerfið og almannaþjónustan áttu að fá þá bætast þessar miklu gjaldahækkanir sem eru hér í þessum fjárlagabandormi. Eins og ég fór yfir í andsvari áðan þá leggjast þær þyngst á tekjulægstu heimilin, þau heimili sem verja eðli máls samkvæmt stærstum hluta tekna sinna til neyslu. Allt er þetta í mínum huga vitnisburður um mjög öfugsnúna forgangsröðun í skattamálum á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Í frumvarpinu sem hér er til umræðu er lagt til að kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki hækki um 7,7% til samræmis við þá hækkun verðlagsvísitölu sem gert var ráð fyrir við framlagningu frumvarpsins frekar en 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans eins og algengast er. Hið sama gildir t.d. um lögin um aukatekjur ríkissjóðs, þar á líka að hækka þessa flötu gjöld. Þessar hækkanir eru kynntar í greinargerð frumvarpsins sem sérstök viðleitni til að draga úr þenslu og verðbólgu. En gallinn við þessa nálgun í glímunni við verðbólgu er sá að í fyrstu leka þessar gjaldahækkanir beint út í verðlagið og hækka vísitölu neysluverðs. Þetta er meira að segja viðurkennt í greinargerð frumvarpsins þar sem fram kemur að þessar hækkanir muni óhjákvæmilega hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og eru áhrifin áætluð 0,2%. Svo minnir mig að áætluð áhrif séu 0,4% ef við tökum breytta skattlagningu af ökutækjum með í reikninginn, ég mun fara yfir það eftir smástund. En auk þess kemur auðvitað þessi ofsahækkun á krónutölugjöldum til hækkunar á verðtryggðum lánum heimilanna. Þetta skiptir líka máli.

Við umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar var það nær samdóma álit umsagnaraðila úr hinum ýmsu áttum að 7,7% hækkun krónutölugjalda væri afar óskilvirk aðgerð til að beita skattkerfinu gegn verðbólgu og þenslu. Hitt er þó enn verra sem ég nefndi hér áðan að þessar hækkanir koma harðast niður á tekjulægri heimilum og þannig er í raun verið að láta sömu hópana og finna sárast fyrir verðbólgunni bera eiginlega allan herkostnaðinn af henni í ríkisfjármálunum. Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á sjónarmiðum sem eru sett fram af hagsmunaaðilum úr mjög ólíkum áttum; verkalýðssamtökum, atvinnurekendasamtökum og neytendasamtökum, sem öllum ber saman um að 7,7% hækkun krónutölugjalda sé óráð.

Ég ætla að lesa hérna upp úr þremur umsögnum sem efnahags- og viðskiptanefnd bárust. Byrjum á BSRB, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að verðbólga á milli ára var 9,3% í september sl. er óheppilegt að ríkisstjórnin boði hækkun gjalda á almenning. […] Sú ákvörðun að láta gjöld fylgja verðlagsþróun í 9,3% verðbólgu er í litlu samræmi við þróun undanfarinna ára. Um er að ræða aðgerð sem mun koma verst niður á tekjulægstu heimilunum. Ítrekað er tiltekið að þetta sé aðgerð til að sporna við þenslu, þótt hún sé í sjálfu sér verðbólguhvetjandi.“

Þetta er það sem ég var að fara hér yfir með verðlagsvísitöluna. Svo skulum við víkja að umsögn frá Félagi atvinnurekenda sem segir:

„Í ljósi þess að yfirlýst markmið fjárlagafrumvarpsins, sem frumvarp þetta fylgir, er að stuðla að lækkun verðbólgu, þykir FA skjóta einkar skökku við að lagt skuli til að krónutöluskattar og -gjöld sem hafa bæði bein og óbein verðlagsáhrif hækki um 7,7%. […] FA bendir á að fyrirtæki á neytendamarkaði hafa þurft að takast á við miklar hækkanir launa og gífurlegar hækkanir á öllum aðfangakostnaði undanfarin misseri. Í sumum tilvikum valda hækkanir krónutöluskatta beinum verðhækkunum og í öðrum tilvikum má ætla að fyrirtæki neyðist til að velta hækkandi kostnaði af þeirra völdum út í verðlag. Þar má nefna sem dæmi hækkandi bifreiða- og eldsneytisgjöld, sem munu valda hækkun á kostnaði við vörudreifingu.“

Svo eru það Neytendasamtökin. Þar kemur t.d. fram að í frumvarpinu sé „ósagt látið að verðbólgutenging þessi“ — miðað við þá verðbólgu sem var gert ráð fyrir við framlagningu frumvarpsins, 7,7% — „leiðir til hækkunar verðtryggðra lána heimilanna (sem nema rúmum 1.000 milljörðum kr.) um það sem nemur rúmlega 2 milljörðum kr. eða um þriðjung ávinnings ríkissjóðs. Þannig er kostnaður neytenda ekki einvörðungu þær umframálögur sem verðtrygging gjaldanna leggur á herðar þeirra, heldur einnig kostnaður vegna hækkunar lána heimilanna sem og annar kostnaður sem hlýst af minnkandi verðgildi krónunnar.“

Svo er líka lagt til í þessum fjárlagabandormi að dregið verði úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig að áfengisgjald fari úr 10% í 25% og tóbaksgjald úr 40% í 50% af því sem almennt gildir, sem sagt af þessum almennu gjöldum. Þetta fullyrðir fjármála- og efnahagsráðuneytið að muni skila ríkissjóði 700 milljónum en ég vil benda á að ekki virðist hafa farið fram nein greining af hálfu ráðuneytisins á áhrifum þessara hækkana, t.d. á eftirspurn og kauphegðun með tilliti til samkeppnisstöðu fríhafnarinnar gagnvart erlendum fríhöfnum og flugfélögum. Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þessum hækkunum og áhrifum þeirra á innlenda smáframleiðendur á áfengi sem eiga mjög mikið undir þessari fríhafnarsölu. Það eru mér nokkur vonbrigði að stjórnarmeirihlutinn, sem hefur nú gefið sig út fyrir að vilja styðja við atvinnulífið og ekki leggja of þungar byrðar á það, hafi kannski ekki tekið tillit til þeirra mörgu athugasemda sem bárust um þetta efni.

En þetta eru ekki einu ómarkvissu skatta- og gjaldahækkanirnar sem boðaðar eru í þessum fjárlagabandormi, það er varla hægt að telja gjöldin sem hækka í þessum blessaða bandormi. Hér er, eins og vikið var að í andsvörum, líka verið að leggja til umfangsmiklar breytingar á skattlagningu ökutækja. Þar er verið að tala um lágmarksvörugjald á alla fólksbíla og tvöföldun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjaldsins. Þarna er verið að draga mjög hressilega úr þeim verðmun sem er í dag á ökutækjum og þeim mun sem er á rekstrarkostnaði eftir því hversu miklu jarðefnaeldsneyti bílar brenna eða hvort þeir brenna kannski engu jarðefnaeldsneyti. Það er í rauninni verið að veikja mjög rækilega innbyggða orkuskiptahvata í skattlagningu ökutækja á Íslandi og alveg ljóst að við þessar breytingar verður það í raun fýsilegra fyrir neytendur heldur en áður að kaupa og reka eyðslufrekar bifreiðar. Ég vil bara minna þingheim á að hlutdeild hreinorkubifreiða í heildarflota fólksbifreiða hér á landi er enn þá mjög lítil. Við eigum enn þá mjög langt í land í þessum orkuskiptum í vegasamgöngum, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef eitthvað er að marka allar þessar hátimbruðu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að ná t.d. fram 55% samdrætti í losun fyrir árið 2030 þá getur stjórnarmeirihlutinn og við hér á Alþingi ekki leyft okkur að byggja svona breytingar á skattlagningu ökutækja einvörðungu á sjónarmiðum um að breikka skattstofna, eins og hér var nefnt áðan, um að sporna gegn þenslu og auka tekjur ríkissjóðs. Það er bara skammsýni að byggja svona skattabreytingar einvörðungu á slíkum sjónarmiðum. Við verðum að horfa til loftslagssjónarmiða og beita skattkerfinu markvisst til að styðja við útfösun jarðefnaeldsneytis.

Ég nefndi hér áðan samstarfsvettvang atvinnulífs og stjórnvalda um orkuskipti, sem m.a. ráðuneyti eiga aðild að og stjórnvöld, m.a. Orkustofnun. Græna orkan varar eindregið við þeim breytingum sem hér er verið að gera og segir að þetta muni valda skaða á ferli orkuskipta í samgöngum. Eftir að hafa skoðað þetta vel get ég ekki annað en tekið undir þessa gagnrýni og mér finnst satt best að segja ósköp leitt að ekki sé meiri alvara á bak við öll þessi háleitu markmið sem eru borin á borð fyrir okkur í loftslagsmálum.

Ég vil nefna hér líka, af því að við erum að tala um orkuskipti í samgöngum og útfösun jarðefnaeldsneytis, að í þessum efnum skiptir auðvitað einna mestu máli að liðka fyrir fjölbreyttari ferðavenjum og draga úr bílaumferð almennt. Við eigum bara að segja það hreint út: Við þurfum að draga mjög hressilega úr bílaumferð. Við þurfum að þétta byggð og efla almenningssamgöngur. Í þessu samhengi vil ég brýna fyrir stjórnarmeirihlutanum hér á Alþingi að virða samninginn um eflingu almenningssamgangna sem ríkið og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér fyrir mörgum árum, en uppsafnaðar vanefndir ríkisins á þeim samningi nema 1,5 milljörðum kr. Í stað þessarar fjársveltistefnu gagnvart almenningssamgöngum þá legg ég til að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur taki sér ríkisstjórnina í Þýskalandi til fyrirmyndar, ríkisstjórn sem leidd er af jafnaðarmönnum, græningjunum og frjálslyndum, en þar var farin sú leið að bregðast við hækkandi eldsneytiskostnaði í kjölfar Úkraínustríðsins með því að niðurgreiða almenningssamgöngur mjög rækilega og veita stórfelldan afslátt af fargjöldum í lestir og strætisvagna. Hvernig væri að gera eitthvað svoleiðis? Ef markmið um breyttar ferðavenjur og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum eiga að ná fram að ganga verður ríkið að styðja betur við Strætó bs. og koma með auknum krafti að rekstri almenningssamgangna og þetta er eitthvað sem mér finnst að við eigum að huga að hér við fjárlagagerðina.

Víkjum þá að húsnæðismálunum. Á tímum mikillar verðbólgu og hárra vaxta skiptir alveg gríðarlega miklu máli að standa vörð um tekjutilfærslukerfin okkar. Vaxtabótakerfið var einmitt hannað til þess að dempa höggið og létta undir með heimilum í nákvæmlega eins ástandi og við erum í núna, þegar greiðslubyrði af húsnæðislánum fer vaxandi með frekar óvæntum hætti. Vandinn er að vaxtabótakerfið hefur verið veikt mjög markvisst á síðastliðnum tíu árum. Nú gjalda skuldsett heimili fyrir að eignarskerðingarmörkin í vaxtabótakerfinu hafa staðið í stað síðan 2018 á meðan fasteignaverð hefur rokið upp úr öllu valdi. Samkvæmt greinargerð með þessum fjárlagabandormi er gert ráð fyrir að áframhald verði á þessari þróun. Þar stendur, með leyfi forseta: „Mikil hækkun fasteignamats ásamt hærri tekjum mun leiða til aukinna skerðinga á árinu 2023 og mun hækkun vaxta hafa takmörkuð áhrif vegna mikilla skerðinga.“

Komið hefur fram í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ásthildar Lóu Þórsdóttur að með hækkun heildarmats fasteigna, samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2023, sé gert ráð fyrir að vaxtabætur skerðist um samtals 400 milljónir og að hátt í 90% þeirra sem fá vaxtabætur verði fyrir auknum skerðingum. Þetta felur líka í sér að framteljendum sem fá óskertar vaxtabætur fækki um 170 og þeim sem verða fyrir fullum skerðingum fjölgi um tæplega 2.800. Þetta er sem sagt staðan á vaxtabótakerfinu okkar. Hingað til hafa ráðherrar gefið mjög lítið fyrir kröfuna um að hækka eignarskerðingarmörkin. Ég hafði forgöngu um það á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar síðasta vor, á fundi þann 20. maí, að við kölluðum eftir greiningu frá fjármálaráðuneytinu á áhrifum þess að hækka eignarskerðingarmörkin og ráðast strax í slíka hækkun á miðju ári til að verja skuldsett heimili. Ráðuneytið lagðist mjög eindregið gegn þessu og færði fram þau rök að slík hækkun á eignarskerðingarmörkum vaxtabóta stangaðist á við stefnu stjórnvalda. „Ekki verður séð að þörf sé á slíkum stuðningi“, segir í minnisblaðinu frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta. Rökin eru þau að þetta séu íbúðareigendur sem hafi það bara svo gott, þetta er fjórða eða fimmta tekjutíund, af hverju á að vera að styðja við þetta fólk?

Þarna birtist svolítið sú hugsun að velferðarkerfið sé bara fyrir allra tekjulægsta fólkið og að þetta eigi að vera einhvers konar ölmusukerfi, sem er auðvitað stefna sem við jafnaðarmenn höfnum. Við viljum að á Íslandi sé byggt upp sterkt almennt velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd sem er bæði fyrir lágtekjufólk og millitekjufólk. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um húsnæðisstuðning. En fjármálaráðuneytið réðst í þessa greiningu og niðurstaðan varð sú að aðgerðin kostaði 700–800 milljónir og rynni helst til fjórðu, fimmtu og sjöttu tekjutíundanna. Nú er búið að uppfæra kostnaðarmatið, þetta virðist kosta 600 milljónir á næsta ári og mest verða líklega áhrifin hjá einhleypu fólki, hjá einstæðum foreldrum sem hafa lágan tekjustofn — þetta eru heimilin sem verða hvað harðast fyrir barðinu á vaxtahækkunum.

Við í Samfylkingunni höfum beitt okkur mjög fast fyrir þessari hækkun. Okkur finnst þetta alger lágmarkskrafa að eignarskerðingarmörkin verði hækkuð um 50% til að styðja við heimilin sem bera hitann og þungann af hækkandi vöxtum. Við fulltrúar minni hlutans höfðum þegar lagt fram breytingartillögu í þessa veru og það er fagnaðarefni að nú hafi ríkisstjórnin loksins fallist á að fara þessa leið og hækka einmitt eignarskerðingarmörkin um 50%. Ég er mjög ánægður með þetta svo ég geri ráð fyrir að stjórnarmeirihlutinn greiði atkvæði með tillögu okkar í minni hlutanum um þetta. Það er nefnilega mjög mikilvægt að breytingar á eignarskerðingarmörkunum séu lögfestar í lok tekjuárs vegna komandi álagningarárs, þetta kemur m.a. fram í minnisblaðinu frá fjármálaráðuneytinu sem ég vitnaði til hér áðan, og þess vegna leggur 1. minni hluti og við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efnahags- og viðskiptanefnd mikla áherslu á að eignarskerðingarmörkin hækki strax núna við afgreiðslu fjárlaga og fjárlagabandorms.

En hvað með tekjulægri tíundirnar? Þar eru auðvitað líka íbúðareigendur sem njóta vaxtabóta en fólkið í lægstu tekjutíundunum er líka í ríkum mæli á leigumarkaði. Þetta eru í mínum huga heimili sem verður að styðja með hækkun húsnæðisbóta og með hömlum á hækkun leiguverðs. Í því samhengi og í ljósi sláandi frétta af okri og óréttlætanlegum viðskiptaháttum stórra leigufélaga þá minni ég á þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana, sjá þskj. 11 á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem við leggjum til að lögfest verði leigubremsa til að sporna gegn hækkun leiguverðs líkt og gert var í Skotlandi og Danmörku fyrr í haust og 1. minni hluti hér skorar á ríkisstjórn Íslands að undirbúa slíkt frumvarp um leigubremsu og leggja fyrir Alþingi sem allra fyrst. Slíkt inngrip, samhliða eflingu húsnæðisbótakerfisins og aukinni uppbyggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis á félagslegum forsendum, myndi skipta sköpum fyrir tekjulægstu hópana á Íslandi og stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að hækkun húsnæðisbóta ein og sér skilar sér ekkert endilega til fulls til leigjenda nema einmitt að við setjum einhverjar hömlur á hækkun leiguverðs. Að sama skapi verður að standa með barnafólki í landinu með kraftmiklum stuðningi í gegnum barnabótakerfið, bæði með því að auka stuðning sem er veittur með hverju barni og með því að hækka viðmiðunarmörk þannig að barnabætur nái til fleiri fjölskyldna og eftir atvikum að lækka skerðingarhlutföllin í kerfinu.

Nú boðaði ríkisstjórnin á mánudaginn 5 milljarða innspýtingu í barnabótakerfið þegar gengið var frá kjarasamningum. Það kom hins vegar í ljós í gær — mér var mjög brugðið þegar þetta kom í ljós — að barnabætur munu aðeins hækka um 600 milljónir á kjarasamningstímanum. Það er hin raunverulega tillaga ríkisstjórnarinnar. Þær verða þá mest 2 milljörðum hærri frá og með árinu 2024 en gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem hefur nú þegar verið samþykkt á Alþingi. Þetta eru fjárheimildir sem er nú þegar gert ráð fyrir. Á hverju byggir þá þessi 5 milljarða tala frá ríkisstjórninni? Jú, hún byggir á samanburði við algjörlega fjarstæðukennda sviðsmynd. Sú sviðsmynd er í rauninni þannig að gert er ráð fyrir að fjárheimildirnar í þessari fjármálaáætlun sem við höfum nú þegar samþykkt verði ekki fullnýttar á tímabilinu heldur verði barnabótakerfið látið drabbast niður með raunrýrnun fjárhæða og viðmiðunarmarka, eins og hefur t.d. verið gert með vaxtabótakerfið. Það er sem sagt verið að teikna upp slíka ímyndaða sviðsmynd og nota hana sem einhvers konar upphafsstöðu í einhverjum samanburði. Þetta er alveg ótrúlegur leikur að tölum sem virðist því miður vera til þess gerður að kasta ryki í augu fólks, ég sé ekki hvað annað fólki getur gengið til þegar hlutirnir eru settir svona upp. Ég bendi á að það er vel hægt að efla barnabótakerfið mjög duglega án þess að slaka á aðhaldsstigi opinberra fjármála og það gerum við með því að grípa um leið til ráðstafana á tekjuhlið sem eru til þess fallnar að draga úr þenslu.

Af hverju skiptir máli að gera það? Af hverju þurfum við að draga úr þenslu? Meginvextir Seðlabanka Íslands hafa hækkað um 3,75% í ár og eru nú 5% hærri en þeir voru þegar heimsfaraldur kórónuveiru stóð sem hæst. Skammtíma markaðsvextir hafa þróast í takt við þessa meginvexti bankans og heimili landsins hafa svo sannarlega ekki farið varhluta af þessu herta aðhaldi peningastefnunnar. Í umsögn Seðlabanka Íslands um fjárlagafrumvarpið kemur fram að í ljósi nýlegrar þróunar verðbólgu telji Seðlabankinn brýnt að ekki verði vikið frá því að aðhaldi í ríkisfjármálum verði beitt á næstu misserum. Hinn 23. nóvember sl. ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að hækka vexti um 0,25% þannig að meginvextir eru orðnir 6%. Það er alveg ljóst að ákvarðanir sem eru teknar hér í þessum sal, um þróun ríkisfjármála og aðhaldsstig opinberra fjármála, eru á meðal þeirra atriða sem ráða mjög miklu um þróun vaxta og verðbólgu á næstu misserum. Við í Samfylkingunni leggjum mjög þunga áherslu á það að stjórnmálamenn láti ekki bara Seðlabankann einan um að sporna gegn verðbólgu. Við verðum að tryggja að ríkisfjármálin rói í sömu átt og peningastefnan. Þess vegna er mjög umhugsunarvert að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir 89 milljarða hallarekstri ríkissjóðs þrátt fyrir þenslu í hagkerfinu, kraftmikinn hagvöxt og hátt atvinnustig. Nú liggur fyrir að verðbólguhorfur á næsta ári eru dekkri en þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram og stýrivextir hafa verið hækkaðir enn frekar en samt hefur verið lögð til alveg gríðarleg útgjaldaaukning án þess að haft sé fyrir því að afla nýrra tekna til að vega á móti þensluáhrifunum af þessum auknu útgjöldum. Því er verið að auka misræmi milli tekna og gjalda og engu líkara en að stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi sé beinlínis að grátbiðja um að verðbólga haldist há og vextir haldist áfram háir. Þetta er ofboðslega óábyrgt.

Eftir að breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar voru kynntar þá hefur seðlabankastjóri stigið fram og lýst áhyggjum af stöðu mála og skyldi engan undra, haft er eftir honum á mbl.is að þetta muni örugglega hægja á því að við náum verðbólgunni niður. Hvað hefur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gert síðan þetta gerðist allt saman? Jú, hér er verið að leggja til enn frekari lækkun á tekjum. Það er verið að afsala ríkissjóði ákveðnum tekjum sem var gert ráð fyrir vegna sjókvíaeldis. Í rauninni er því bara haldið áfram með þessar ósjálfbæru skattalækkanir. Þessi staða, að svona sé gengið um ríkisfjármálin, grefur undan getu ríkisins til langs tíma til að reka hérna sterkt velferðarkerfi og kraftmikla almannaþjónustu. Þannig er það nú bara. Það þarf að styrkja tekjugrunn hins opinbera, bæði til að herða á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna til skamms tíma og til að tryggja sjálfbæran rekstur ríkisins til framtíðar, og við slíka tekjuöflun vil ég benda á það gríðarlega ójafnvægi sem hefur verið í hagkerfinu milli mismunandi geira eftir heimsfaraldurinn. Sumir geirar hafa borið mjög þungar byrðar en afkoma fyrirtækja í öðrum greinum verið sögulega há, þar má t.d. nefna sjávarútveginn sem hefur grætt á hækkandi útflutningsverði sjávarafurða og bankakerfið, þar sem viðskiptabankarnir þrír skiluðu 80 milljarða hagnaði árið 2021 og stefnir í eitthvað sambærilegt í ár. Einnig má nefna gríðarlegar útgreiðslur og kaup á eigin hlutabréfum og arðgreiðslur hjá fyrirtækjum í Kauphöllinni.

Það er alveg ljóst að þeir ríku eru að verða ríkari. Tekjuhæsta 1% og tekjuhæsta 0,1% er að taka til sín sífellt stærri hlut af þeim tekjum sem verða til í samfélaginu. Þetta eru sjónarmiðin sem við verðum að horfa til þegar verið er að gera breytingar á skattkerfinu, þegar verið er að hækka skatta til að sporna gegn þenslu í hagkerfinu. Þess vegna höfum við í minni hlutanum lagt til að fallið verði frá þessari ofsahækkun krónutölugjalda og í staðinn farin sú leið að hækka fjármagnstekjuskattshlutfallið um 3%. Ég minni á að þetta er aðgerð sem leggst nær einvörðungu á tekjuhæstu 10% vegna þess að frítekjumörk eru til staðar sem verja hina tekjuhópana. Við leggjum líka til að það verði ekki farið í þessa bröttu hækkun gjalda á áfengi í fríhöfninni. Eins og ég nefndi hér áðan þá leggjum við til að eignarskerðingarmörkin í vaxtabótakerfinu hækki um 50%.

Þetta eru allt mjög mikilvægar aðgerðir. Auðvitað er það þannig að ef við í Samfylkingunni færum hér með stjórn ríkisfjármálanna þá hefðu þessi fjárlög og fjárlagabandormur litið allt öðruvísi út, en hér er minni hlutinn að gera ákveðnar lágmarksbreytingar í takt við ákveðnar lágmarkskröfur um það hvernig okkur finnst að haga eigi málum hér við þessar viðkvæmu kringumstæður.