Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Haraldur Benediktsson getum verið sammála um að um það ættum við að vera að ræða, eðli aðgerðanna í grunninn. Ég held að allir hv. þingmenn sem sitji í þessum sal vilji að við getum bara talað um staðreyndir mála og talað um pólitík, hugmyndafræði og aðgerðir út frá þeim. Vandi skapast auðvitað þegar það er verið að stilla hlutum upp eins og stærri aðgerð en þeir raunverulega eru. Það eru þær athugasemdir sem ég hef gert við þetta mál og ég vek athygli á því, af því að nú sátum við hv. þingmaður nú flesta þessa fundi saman og ekki margir fundir sem ég missti af, að aldrei var rætt um það í vetur af hálfu fjármálaráðuneytisins að það stefndi ekki í nýtingu á þeim 13,9 milljörðum sem voru settir inn í fjárlagafrumvarpið í haust. Það kom ekki fram í einni einustu umsögn að það stefndi í það að það væri hætta á að skerðingar myndu hreinsa 2.600 manns út úr kerfinu. Það var aldrei tekin umræða um að það væri neyð að skapast með þessa fjárheimild sem þyrfti að grípa inn í með sértækum úrræðum í desember. Þetta snýst því auðvitað bara um verklag og framsetningu. Í grunninn er ég að gagnrýna það. Til að mynda beindist ein aðalgagnrýni okkar í Samfylkingunni á barnabótatillögur ríkisstjórnarinnar í 2. umr. að þeirri staðreynd að heimildin var óbreytt í 13.965 milljörðum kr. milli ára og henni fylgdi því engin raunaukning. Það var aðalgagnrýnin. Ef ég hefði séð 12,2 á blaði þá hefði ég vissulega farið harðar í það og umsagnaraðilar hefðu farið harðar í það. Ef ég hefði vitað í fyrstu viðbrögðum að það stæði til að setja 600 millj. kr. í kerfið um áramótin sem eru bara til þess fallnar, virðulegur forseti, að vera raunaukning til að mæta verðbólgu þá hefði ég brugðist öðruvísi við. Því tek ég undir að auðvitað eigum við að ræða um umbætur en framsetning mála skiptir máli.