Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef maður hefði eingöngu sýn stjórnarandstöðunnar á opinber fjármál myndi maður halda að hér væri allt á vonarvöl. Það hefur reyndar átt við við afgreiðslu fjárlaga á hverju ári undanfarin ár. Staðreyndin er samt sú að hér á Íslandi hefur okkur tekist að auka kaupmátt íslenskra heimila ár eftir ár þannig að hann hefur vaxið langt umfram það sem á við í nágrannalöndunum. Og núna á árinu 2022 og áfram inn á árið 2023 horfum við til þess að kaupmátturinn haldi áfram að vaxa þegar hann er að hrynja í samanburðarlöndunum. Hann er t.d. að hrynja víða í evrulöndunum. Vanskil íslenskra heimila hafa ekki verið jafn lág í fjármálakerfinu og í ár um langt árabil og vanskil fyrirtækjanna, meira að segja á Covid-tímanum, voru lækkandi allan tímann. Það sem hefur tekist að gera með opinberum fjármálum er að stórbæta lífskjör heimilanna, stórefla umsvifin í hagkerfinu, skapa ný störf, (Forseti hringir.) komast af stað aftur upp úr Covid-inu og við ætlum að halda áfram á þeirri braut með þessu farsæla fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023.