Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að koma að tjá mig því að mér finnst svo margt skemmtilegt koma fram að ég hefði ekki þurft að bæta í brúsann. En hæstv. fjármálaráðherra hleypir alltaf einhverri kæti í mig þannig að ég get ekki stillt mig um að koma hingað upp. Hann talar um að það sé verið að skapa skjól. Ég veit ekki hvort þetta er Íslandsmet, eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði svo fimlega frá áðan, eða hvort þetta er hreinlega heimsmet í tvískinnungi og undanbrögðum frá raunverulegri stöðu. Þegar ég kom hér til vinnu í morgun mætir mér ungur maður með hjólið sitt og alla sína búslóð aftan í einhverri kerru af því að hann á ekkert skjól. Hann er einn í hópi hátt í 400 einstaklinga sem eiga hvergi höfði sínu að halla og eiga ekkert skjól og hafa ekki þak yfir höfuðið. Ég segi bara: Hvers lags eiginlega tvískinnungur er þetta? Það verður bara að viðurkennast að ef þetta er raunverulega það sem ríkisstjórnin heldur þá verða þau að fara að koma sér út í samfélagið, niður á jörðina til fólksins sem þarf á hjálp þeirra að halda. (Forseti hringir.) Því að það eru allt of margir, virðulegi forseti, sem eiga ekkert skjól.