153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

viðbrögð stjórnvalda vegna hælisleitenda.

[15:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Hér á eftir ræðum við litla útlendingafrumvarpið, svokallaða. Ég vona og treysti að hæstv. dómsmálaráðherra muni taka að einhverju marki þátt í þeirri umræðu með okkur. Í millitíðinni tel ég fullt tilefni til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki megi eiga von á frekari viðbrögðum við því ástandi sem hæstv. dómsmálaráðherra lýsir réttilega sem stjórnlausu nú þegar ásókn í hæli á Íslandi er komin umfram það sem innviðir samfélagsins þola, eins og meira að segja ríkislögreglustjóri hefur varað við, og Ísland rekur hratt frá hinum Norðurlöndunum hvað stefnu varðar og ásóknin hér orðin hlutfallslega margfalt, margfalt meiri en þar. Getum við átt von á því — og ég spyr leiðtoga stærsta ríkisstjórnarflokksins — að fljótlega birtist einhverjar raunverulegar lausnir frá ríkisstjórninni til að takast á við þennan vanda, endurskoðun útlendingalaganna í heild, ekki er vanþörf á, eða a.m.k. eitthvað sem getur orðið til þess að við náum stjórn á þessum gríðarlega stóra og mikilvæga málaflokki og það geri okkur þá kleift að nýta möguleika okkar á að hjálpa sem flestum þeirra sem eru í mestri neyð í stað þess að vera í stöðugri nauðvörn og jafnvel, svo að ég vísi enn og aftur í forsætisráðherra Danmerkur, söluvara glæpagengja sem nýta aðstæður á Íslandi án viðbragða stjórnvalda? Er von á einhverju? Er von á viðbrögðum í samræmi við tilefnið?

Þessu tengt spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort við megum eiga von á því að hæstv. dómsmálaráðherra geti þá fylgt slíkum málum eftir. Hæstv. ráðherra hefur lýst því að hann sé önnum kafinn við að fylgja eftir stórum málum sem vonandi birtast fljótlega, en fær hann tækifæri til þess eða á stjórnarandstaðan að gera ráð fyrir því að hún geti tafið hér mál fram að því að hún losnar við hæstv. dómsmálaráðherra?