Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Það ákvæði sem er í núgildandi lögum um þennan 12 mánaða frest var sannarlega sett til þess að setja pressu á stjórnvöld að klára mál innan 12 mánaða. Það ákvæði sem er í frumvarpinu sem á núna að fara í gegn snýst um að eyðileggja þetta ákvæði og ekkert annað. Það snýst um það að lögleiða þætti sem ekki hefur verið fallist á af hálfu kærunefndar eða dómstóla hingað til að teljist tafir sem eru á ábyrgð umsækjanda, svo sem það þegar foreldri barns mætir ekki í læknistíma fyrstu vikuna og 12 mánuðum síðar missi barnið réttindi. Þannig ákvarðanir hefur Útlendingastofnun tekið og það er verið að lögleiða það. Þetta snýst ekki um að auka skilvirkni. Þetta frumvarp snýst um að lögleiða framkvæmd Útlendingastofnunar sem hefur verið dæmd ólögmæt annaðhvort með úrskurðum kærunefndar útlendingamála eða dómstóla.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, ég kemst ekki í seinni spurningu mína vegna þess hversu óljóst hún svaraði fyrri spurningu minni: Finnst hv. þingmanni í lagi að hér dvelji börn árum saman (Forseti hringir.) og öðlist engan rétt vegna þess að foreldrar þeirra gerðu eitthvað (Forseti hringir.) eða lögmaður þeirra úti í bæ sem börnin hafa ekkert með gera? (Forseti hringir.) Finnst þingmanninum þetta í lagi?