Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir gott samstarf í hv. allsherjar- og menntamálanefnd núna á þeim tíma sem við höfum verið að fjalla um þetta mál. Ég ber mikla virðingu fyrir hv. þingmanni, hennar bakgrunni og þekkingu á þessum málaflokki og það hefur svo sannarlega aukið vægi okkar í umræðunni í nefndinni.

Ég átta mig engu að síður á því, virðulegur forseti, að ég og hv. þingmaður erum ósammála að mjög stóru leyti um þetta frumvarp. Mig langar samt sem áður að ítreka það sem hv. þingmaður vísaði hér á varðandi stjórnarskrána og umræðuna sem skapast hefur um það hvort einhver hætta sé á því að þetta frumvarp brjóti í bága við stjórnarskrána. Svo tel ég alls ekki vera og ég vil bara minna á frumskyldu okkar þingmanna allra að við vinnum samkvæmt stjórnarskránni. Það er að sjálfsögðu þar af leiðandi líka sú meginregla sem allir okkar helstu ráðgjafar, lögfræðingar hjá þinginu, horfa til , svo og auðvitað hjá ráðuneytinu þaðan sem þetta frumvarp kemur.

En mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún að hin Norðurlöndin séu með einhverjum hætti ómannúðleg? Tökum sérstaklega norska kerfið. Telur hv. þingmaður að það sé brotið á réttindum fólks á flótta í Noregi?