Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Innviðaráðherra kynnti í gær, mánudag, tillögur til úrbóta í skýrslu starfshóps um lokun Reykjanesbrautar í desember síðastliðnum vegna aftakaveðursins. Þjóðin var um helgina aftur minnt hressilega á hversu lítils við erum megnug gagnvart auknum öfgum í veðurfari þegar öllum flugferðum var aflýst enn á ný þótt það hafi sem betur fer fljótt gengið yfir. Eftir stendur að Ísland mun nú þurfa að glíma við ímyndarvanda sem óeftirsóknarverður áfangastaður yfir vetrarmánuði vegna veðurofsa. Hæstv. innviðaráðherra hefur sagt að hann muni tryggja að jafn löng lokun og átti sér stað á Reykjanesbrautinni í desember gerist ekki aftur.

Forseti. Ég leyfi mér að slá því föstu hér í dag að þessu er ekki hægt að lofa. Bílar og vegir, hversu vel búnir sem þeir eru, mega sín í lok dags lítils þegar kemur að auknum veðurofsa og snjóþunga sem honum fylgir. Að vetri fara allir ferðamenn, innlendir sem erlendir, á bílum á alþjóðaflugvöllinn okkar og það er og verður vandamál. Á öllu árinu 2021 féll ekki niður ein einasta ferð með flugvallarlest Gardermoen í Noregi, jafnvel á dögum þar sem það gerði alvöruveður, hvort sem það voru vindar, snjóþungi eða frosthörkur. Þótt talsvert færri komi við á alþjóðaflugvellinum okkar í dag var ráðist á sínum tíma í gerð norsku lestarinnar þegar mun færri ferðamenn fóru um Gardermoen. Ég vil ekki gera lítið úr þeim metnaðarfullu tillögum sem Vegagerðin og viðbragðsaðilar hafa gert grein fyrir í nýútkominni skýrslu heldur eigum við sannarlega að fagna þeim. En þegar kemur að veðurofsa og bílum þá getum við engu lofað.

Herra forseti. Lok tvöföldunar Reykjanesbrautar eru handan við hornið og ef ég þekki fólk rétt fara bráðum að heyrast raddir þess efnis að nú sé kominn tími á að fara að huga að þreföldun. Þótt lest kosti er ávinningurinn fyrir Suðurnes og höfuðborgarsvæðið í heild slíkur að það er kominn tími til að vekja verkefnið af löngum dvala. Ein akbraut í viðbót lagar engan vanda því að, herra forseti, lest er best.