Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[15:01]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Eitt helsta framlag núverandi ríkisstjórnar til að takast á við loftslagsvandann hafa verið sérstakar ívilnanir til að styðja við kaup á fólksbílum sem eru að öllu leyti eða að hluta knúnir rafmagni. Þessar ívilnanir virðist hafa virkað afar vel, svo vel raunar að á síðasta ári voru 12.000 fólksbílar nýskráðir umfram afskrifaða. Samkvæmt tölfræði Umhverfisstofnunar voru fleiri nýir fólksbílar skráðir sem ganga fyrir bensíni eða dísil en allir bílar sem voru afskrifaðir. Samkvæmt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands nýttust þessar ívilnanir einna helst fólki með meðaltekjur og yfir við kaup á bíl nr. 2 eða jafnvel 3 á heimili. Þannig er ljóst að allir rafmagns- og tengiltvinnbílarnir voru hrein viðbót og stemma því hvorki stigu við fjölgun bíla í vegakerfinu né stuðla að því að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Það skyldi engan undra þar sem ríkisstjórnin hefur skilað auðu þegar kemur að uppbyggingu almenningssamgangna á sama tíma og við ættum að vera í stórsókn en neyðumst til að skera niður og draga úr þjónustu. Þegar sáttmáli um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður var búist við að borgarlína yrði byrjuð að keyra í dag. Raunveruleikinn er sá að það virðist vera jafn langt í að byrjað verði að keyra núna og þegar sáttmálinn var undirritaður. Uppbygging innviða til rafhleðslu hefur heldur ekki verið næg og þörf er á margföldun ef styðja á með fullnægjandi hætti við núverandi fjölda rafbíla og tengiltvinnbíla. Á sama tíma og kaup vel stæðs fólks á nýjum bílum eru niðurgreidd af ríkinu líður kerfi almenningssamgangna fjársvelti.

Loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar kunna að vera háleit á blaði en raunveruleikinn er allt annar. Metnaðarleysið er algert. Til hvaða aðgerða ætlar ráðherra að grípa til að ekki skapist ófremdarástand vegna þessa?