Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Staðan á vinnumarkaði er orðin býsna alvarleg. Viðræður Eflingar við Samtök atvinnulífsins eru komnar í algjöran hnút og fram undan eru verkfallsaðgerðir sem lama munu margvíslega atvinnustarfsemi. Efling hefur nú boðað aðgerðir á hluta hótela hér í Reykjavík og eru þær hugsaðar sem fyrsta stig aðgerða sem að lokum munu enda sem allsherjarverkfall náist samningar ekki. Án þess að ætla mér að hafa skoðanir á fyrirkomulagi þessara aðgerða finnst mér rétt að fjalla um þessa stöðu, en einnig um það sem snýr að okkur sem sitjum hér á Alþingi. Það er og ætti alltaf að vera grundvallarkrafa launafólks að geta lifað af laununum sínum, að það sem þú færð í launaumslagið í hverjum mánuði dugi fyrir framfærslu og þú þurfir ekki að hafa stöðugar áhyggjur af fjárhagsstöðu þinni. En afkomuöryggi er ekki bara tryggt með þeim krónum sem þú færð í vasann heldur kemur fleira til. Það skiptir ekki alltaf máli hversu margar krónur þú færð í vasann heldur hvað þú færð fyrir þær. Það liggur alveg fyrir að fjöldi fólks á erfitt með að ná endum saman og mörg búa í raun við sára fátækt. Við erum að upplifa miklar hækkanir þessa dagana. Vaxtakostnaður eykst, matarverð hækkar, bensín hækkar, það er dýrt að fara til læknis, í sjúkraþjálfun og allir þessir þættir hafa áhrif. Það skiptir máli hvað er verið að greiða í barnabætur, húsaleigubætur eða vaxtabætur. Það skiptir máli hvað við erum að gera hér á Alþingi. Þær krónutöluhækkanir sem samþykktar voru í fjárlagafrumvarpinu hafa ekki hjálpað til við að landa kjarasamningum heldur þvert á móti.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli hvað við erum að gera hér og við verðum að gera betur en þetta.