Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég var í þeim hópi nefndarmanna í umhverfis- og samgöngunefnd sem sótti heim Bretland í nýliðinni viku. Það var góð ferð og veitti okkur dýrmæta innsýn inn í störf þeirra nágranna okkar á sviði umhverfis- og samgöngumála. Það er aðdáunarvert, eins og hér hefur komið fram fyrr í dag, hvernig þeir tryggja samráð og samræmingu milli sinna ráðuneyta varðandi útblástur og mengunarmál. Við vorum þarna einnig að kynna okkur það veganesti sem þarf í komandi stefnumótun varðandi nýtingu vindmylla sem orkugjafa.

Það var afar upplífgandi og áhugavert að sjá hvernig t.d. Skotar haga sínum þingstörfum, þar sem sitja nú mun fleiri í þingsalnum en í þessum og eru ekki að brölta alltaf í og úr ræðustólnum heldur hafa hljóðnema og tala hratt og með skilvirkni sín á milli, spara heilmikinn tíma og eru til fyrirmyndar í því.

Mér var hins vegar nokkuð brugðið sem gömlum kúreka á sveitabæ við Kilmarnock þegar ég ók um héruð míns gamla tímabundna heimalands og sá hvernig þeir eru búnir að dreifa vindmyllum um allar koppagrundir. Sem ferðamannaþjóð held ég að þeir hljóti að fá að líða fyrir það og ég myndi vara sterklega við því. Þeir voru með gróðaglampa í augum yfir því að verða senn Sádi-Arabía norðursins ásamt Íslendingum og fleiri grannþjóðum, eins og þeir vildu vonast til. Ég vil gjalda varhug við slíkum glampa. Ég held að við þurfum að fara okkur afar varlega í því að skreyta landið okkar fagra með slíkum turnum og hreyflum. (Forseti hringir.) Ef við freistumst til þess þyrfti alla vega að setja um það stífan ramma og ég hef lagt það til áður og ætla að deila því hér örstutt, (Forseti hringir.) að ef við ætlum að búa til vindmyllugarð upp við Búrfell þá skulum við gera það að eftirsóttum áfangastað með því að gera þetta að ljósa- og hljóðupplifun sem dregur til sín fólk.

Að öðru leyti var þetta góð heimsókn.