Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

fjárframlög til heilbrigðismála.

[10:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við verðum að komast út úr því að ræða bara um viðbragðstillögur. Við vitum að þær tillögur sem er verið að ræða um á bráðamóttökunni snúa að grundvallarvandanum sem er legurýmavandi í landinu. Það þýðir ekkert að koma sífellt með stakan og stakan milljarð í að leysa einhvers konar afleiðingarvanda þegar það er engin sýn, það er engin von hjá neinum í kerfinu um að legurýmavandinn sé leystur. Ég vek sérstaklega athygli á þessu, ekki að tilefnislausu heldur vegna þess að í síðustu fjármálaáætlun voru 3,5 milljarðar teknir út úr lið fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma, að því er virðist einhliða, á vegum hæstv. fjármálaráðherra, án nokkurra útskýringa. Þau svör komu m.a. frá heilbrigðisráðuneytinu að til stæði að sækja þetta fjármagn. Er þetta fjármagn sem hæstv. ráðherra mun beita sér fyrir að verði sett aftur inn í þessa áætlun? Við vitum að þessi vandi mun ekki leysast án þess að farið verði í uppbyggingu þessara úrræða, sama hvað verður gert á bráðamóttökunni. Hvað munum við í minni hlutanum, og bara fólkið í landinu, sjá varðandi tillögu hæstv. heilbrigðisráðherra í þessum málaflokki í fjármálaáætlun í vor?