Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég efast reyndar ekki um heilindi Framsóknarflokksins þegar kemur að málefnum barna. Ég held að Framsóknarflokknum, eða alla vega barnamálaráðherra, sé einlæglega annt um þann málaflokk og vilji gera vel í því sem snýr að börnum og stöðu þeirra og lífskjörum. Barnamálaráðherra hefur gert vel í því að vekja athygli á kjörum barna og réttindum og ýmsar réttarbætur hafa verið gerðar á barnaverndarkerfinu, á barnaverndarnefndunum o.s.frv., sem mér finnst hafa verið góðar.

En jú, það skýtur skökku við að þegar um er að ræða börn sem eru í viðkvæmri stöðu — og ég þekki það af störfum mínum sem varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins. Mín áherslumál þar voru réttindi barna á flótta, þ.e. fylgdarlausra barna, og það eru erfiðustu mál sem hægt er að komast í tæri við. Það eru börn sem eru berskjölduð; aðstandendur þeirra og fjölskyldur hafa sent þau út í óvissuna til að öðlast betra líf en þau mæta alls ekki betra lífi. Þetta eru börnin, viðkvæmasti hópurinn, sem við þurfum að sinna og vera ávallt tilbúin til þess að taka vel á móti og fólkið í landinu hefur líka ítrekað sýnt vilja sinn í þeim efnum.