Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga og ég er komin í 4. gr. Með þennan stutta ræðutíma þá er ræða mín eins og í bútum. Ég hvet fólk til að hlaða niður upptökunum og raða henni bara saman til að fá heildarmynd af þessu.

4. gr. frumvarpsins fjallar um auknar heimildir lögreglu til þess að afla gagna frá heilbrigðisyfirvöldum í þeim tilgangi að auðvelda flutning einstaklinga úr landi gegn vilja þeirra. Tilefnið er sú niðurstaða að stjórnvöld hafi ekki lagaheimild til þess að afla bólusetningarvottorða vegna Covid. Ég var að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta ákvæði en hún er nokkuð skýr. Hún er ítarleg, hún er nákvæm, hún er talsvert lögfræðileg og ég get skilið að það sé svolítið torf fyrir alla sem lesa að skilja hvað þau eru að reyna að segja. Ég er að reyna að þýða þetta yfir á mannamál.

Ég ætla að grípa niður í umsögn Rauða krossins þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni, með leyfi forseta:

„Hefur ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar verið túlkað í framkvæmd með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans á sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. 8. gr. segir að „[o]pinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í dómaframkvæmd sinni komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla opinberra aðila á mjög viðkvæmum upplýsingum, einkum upplýsingum er varða andlega og líkamlega heilsu auðkennanlegs einstaklings falli undir gildissvið 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu,“ — og er þar vísað í dóm sem ég ætla ekki að rekja hér en hvet fólk, sérstaklega áhugasama, til að kíkja í umsögn Rauða krossins á bls. 5. Áfram heldur í umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Þá hefur Mannréttindadómstóllinn í dómaframkvæmd sinni einnig komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga án samþykkis viðkomandi stríði gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu nema ef lög mæla fyrir um hana, hún stefnir að einu eða fleiri þeirra markmiða sem getið er í 2. mgr. 8. gr. sáttmálans og hún er nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi til að ná því markmiði sem að er stefnt. Þá skuli landslög kveða skýrt á um það umfang og þá aðferð sem stjórnvöldum er heimil við vinnslu persónuupplýsinga til að tryggja einstaklingum þá lágmarksvernd sem þeir eigi rétt á …“

Aftur er vísað til þessa dóms Mannréttindadómstólsins sem ég læt vera að rekja. Áfram heldur í umsögn Rauða krossins, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði sem mæla fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem gagna er varða andlegt og líkamlegt heilbrigði, án samþykkis viðkomandi þurfa því að uppfylla framangreind skilyrði svo unnt sé að takmarka rétt manna sem tryggður er með 8. gr. mannréttindasáttmálans og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þær undantekningar sem koma fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans eru skýrt afmarkaðar og ber að túlka þröngt með hliðsjón af almennri lögskýringarreglu stjórnskipunarréttar enda er þar kveðið á um takmarkanir á grundvallarmannréttindum sem borgurum eru tryggð.“

Það sem er verið að segja hér er að samkvæmt þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem túlkuð eru í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu, er ekki heimilt, jafnvel samkvæmt lagaheimild — lagaheimild fyrir stjórnvöld til að afla heilsufarsupplýsinga um fólk takmarkast af markmiðum gagnaöflunarinnar, því sem ég taldi upp hér áðan, sem er þjóðaröryggi, almannaheill, efnahagsleg farsæld þjóðarinnar, til að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Ég bið hlustendur að íhuga hvort það að koma fólki úr landi í kjölfar neikvæðs svars við umsókn um dvalarleyfi falli undir eitthvert þessara markmiða. Rauði krossinn er á þeirri skoðun að svo sé ekki. Ég mun halda áfram að fara yfir röksemdir hreyfingarinnar fyrir því hér á eftir. Ég óska eftir því við forseta að hann setji mig aftur á mælendaskrá.