Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Eitt af því sem við erum að glíma við í þessu máli er líka forsaga þess. Í þau fjögur skipti sem frumvarpið hefur verið lagt fram hefur sífellt kvarnast aðeins úr því, ákvæði eftir ákvæði, en það er enn heill hellingur af ákvæðum eftir sem eru bara — ja, umsagnirnar segja sitt hvað það varðar. Við skulum bara hafa það á hreinu að við erum ekki að skálda neitt, við förum bara í umsagnir þessara félagasamtaka sem vita alveg hvað þau eru að tala um. Og umsagnir þeirra hafa ekki verið hraktar af meiri hlutanum á neinn hátt. En það er meira en það, meira sem er augljóst, ætti að vera augljóst fyrir þau sem þekkja þennan málaflokk eitthvað. Það er dálítið það sem ríkisstjórnin, og sérstaklega dómsmálaráðherra, virðist stóla á, að fólk þekki þennan málaflokk ekki neitt. Ráðherra fær því einhvern veginn að segja hvað sem er eins og það sé bara satt og rétt.

Það var nokkuð langt viðtal við hann í morgunútvarpinu á Rás 2 í maí á síðasta ári. Bara í því viðtali, þau voru fleiri, greindum við 11 rangfærslur, í því eina litla viðtali. Förum aðeins yfir það: Ráðherra segir að breyta þurfi lögum til að hægt sé að senda fólk til Grikklands sem hefur fengið vernd þar. Þetta er rangt. Lögin, samkvæmt orðanna hljóðan, veita stjórnvöldum í raun mjög þrönga heimild til að senda fólk til baka þangað sem það hefur fengið vernd. Meginreglan er sú að umsókn skal tekin til efnismeðferðar hér á landi en framkvæmdin, eins og hún er, er undantekning. Ráðherra talar eins og það sé ekki hægt að senda fólk ekki til Grikklands. Það þarf sem sagt ekki að breyta lögunum, það þarf bara að breyta framkvæmdinni, því sem lögin heimila, og það er á hendi ráðherra að ákveða það. Stjórnvöld hafa heimild til að senda fólk til baka en ber engin skylda til þess í neinum lagalegum skilningi.

Flóttafólk í þessari stöðu hefur síðan ekki aðgang að dómstólum þar sem það fær t.d. ekki gjafsókn, fær ekki að vera á landinu á meðan beðið er eftir niðurstöðu dómstóla og þá endurskoða dómstólar ekki mat stjórnvalda nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég spurði ráðuneytið aðeins út í þetta: Er það þannig að þau sem hafa fengið synjun á stjórnsýslustigi geti bara rekið mál sitt fyrir dómi? Þau sögðu bara: Já já, ekkert mál. Það er bara dálítið mikið mál fyrir mjög marga af þessum aðilum. Þetta er fólk sem er í neyð, kannski ekki svo rosalega mikilli neyð að það komist í gegnum nálaraugað sem stjórnvöld eru með núna en samt í neyð, t.d. fólk frá Íran sem kemst hvorki lönd né strönd; og fólk sem hefur fengið hæli í Grikklandi á í miklum erfiðleikum. Það er fullt af skýrslum, myndir og fréttir, sem sýna og útskýra fyrir okkur hvernig fólk býr þar, eða býr þar í raun ekki. Við þurfum að vaða dálítið í gegnum þær fullyrðingar sem dómsmálaráðherra leggur á borð þings og þjóðar eins og ekkert sé þegar þær eru rangar. Og þetta var bara fyrsta athugasemdin.

Næsta athugasemd snýst um það að fólk sem fær vernd í einu Evrópuríki geti farið hvert sem er í Evrópu og leitað sér að vinnu. Ég veit ekki einu sinni af hverju fólk ætti að trúa þessu. Í alvöru, væri einhver flóttamaður eftir í Grikklandi ef það væri satt? Væru þau ekki langflest farin eitthvert annað miðað við ástandið þar? Og þetta segir dómsmálaráðherra bara blákalt eins og ekkert sé. Og hvað? Má hann bara komast upp með það, bara allt í lagi? Við hljótum að þurfa að geta gert aðeins meiri kröfur til þeirra sem fara með framkvæmdarvaldið um að segja og greina satt og rétt frá.

Það eru fleiri atriði. Ég var rétt byrjaður á atriði 2 af 11. Þetta verður smáspjall eftir því sem líður á kvöldið.