Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Það rifjaðist upp fyrir mér áðan — þegar hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir fór yfir það sem gæti orðið breytingartillaga meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar á síðari stigum þessa máls, breytingartillaga sem væri ekkert annað en að laga einhver og/eða–mistök í textanum — að fyrsta breytingin sem ráðherra kom með til að gera á þessum lögum var einmitt þess eðlis. Gerð var lítils háttar breyting áður en lögin tóku gildi sem var borin fram af fulltrúum meiri hlutans hér á þingi en ekki ráðherra. En stuttu eftir gildistöku laganna kom í ljós að það hafði orðið villa, ekki og/eða-villa heldur það sem mig grunar að hafi verið „track changes“-villa, að á einhverju stigi máls við lokaafgreiðslu frumvarpsins hafi einhver ýtt á vitlausan hnapp þegar kom að því að samþykkja eða hafna breytingum í skjalinu þar sem haldið var utan um það umfangsmikla verkefni sem heildarendurskoðun laga hefur alltaf í för með sér. Það frumvarp sem varð síðan að lögum nr. 17/2017 gerði tvenns konar breytingar, annars vegar til mikillar óþurftar og var þar stigið fyrsta skrefið í átt frá pólitísku sáttinni sem gjarnan er vísað til að hafi ríkt um þetta mál frá upphafi. Ekki var langt liðið á fyrsta aldursár þessara laga þegar hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, lagði til að þrátt fyrir að fólk væri búið að kæra niðurstöðu kærunefndar frestaði sú kæra ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar Útlendingastofnunar að útlendingur skuli yfirgefa landið. Þetta er ekkert smáræðisákvæði af því að áhrifin af þessu eru t.d. þau að hægt er að skófla tugum umsækjenda um alþjóðlega vernd upp í þotu og fljúga þeim suður til Grikklands og henda þeim á götuna þar þótt þau eigi enn mál fyrir dómstólum og það einmitt mál sem við sáum í vetur, mál sem unnust, þar sem niðurstaða féll einstaklingnum í vil gegn íslenska ríkinu. Þetta óþurftarákvæði hæstv. dómsmálaráðherra þess tíma varð að lögum en það var borið fram í frumvarpi sem innihélt líka aðra grein þess efnis að orðin „hjúskapur eða“ myndu falla brott í 70. gr. laganna. 70. gr. útlendingalaga tilgreinir skilyrði þess að gefin séu út dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar og þar sem þessi viðbót var óvart inni voru skilyrðin í raun hækkuð. Þá var það þannig að hjúskapur hefði þurft að vara í a.m.k. eitt ár áður en skilyrði 2. mgr. 70. gr. virkjuðust. En hugsunin, tilgangurinn, ætlunin var að þetta ætti einungis að taka til sambúðar þannig að ákvæðið, eins og það stóð í lögum þegar þau voru samþykkt í breiðri sátt, var að heimilt væri að beita ákvæðum þótt hjúskapur eða sambúð hafi varað skemur en eitt ár; leiðréttingin að taka: „hjúskapur eða“ burt.

Við látum þetta yfirleitt okkur að kenningu verða og förum vel og vandlega yfir frumvörp á öllum stigum máls hér á þingi. Villurnar geta slæðst með. Hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir er búin að finna eina þeirra, hún benti á hana í nefndinni en á það var ekki hlustað. Það er dálítið áhugavert vegna þess að ef við viljum vanda til verka (Forseti hringir.) hljótum við að geta hlustað á fólk sem grefur upp villur þó að það sé ekki úr flokkum sem eru meiri hlutanum þóknanlegir.