Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  1. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég var hér áðan að fjalla um 2. gr. frumvarpsins. Ég var að lýsa því hvernig Rauði krossinn, sem hefur margra ára reynsla af því að vinna sem talsmenn fólks á flótta gagnvart útlendingakerfinu hér, lýsir í raun vantrausti á málsmeðferð Útlendingastofnunar þegar kemur að rannsóknarskyldu stofnunarinnar varðandi hvort umsækjendur tilheyra svokölluðum sérstaklega viðkvæmum hópi. Ég var komin að bls. 3 í umsögn Rauða krossins þar sem þetta fyrirbæri er útskýrt og með fyrirbæri meina ég auðvitað þetta stórtæka vandamál í málsmeðferð á umsóknum um alþjóðlega vernd en ég var einmitt komin að því sem stendur á bls. 3, með leyfi forseta:

„… stofnunin“ — Útlendingastofnun — „vanrækir skyldu sína til að hafa frumkvæði að slíkri rannsókn“ — sem sagt rannsókn um hvort umsækjandi tilheyri sérstaklega viðkvæmum hópi — „jafnvel þegar vísbendingar eru uppi um að einstaklingar teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Reglulega kemur það upp að umsækjendur hafa ekki verið komnir með tíma í fyrstu heilbrigðisskoðun þegar þeir mæta til viðtals hjá Útlendingastofnun en í slíkri skoðun er skimað fyrir líkamlegum og andlegum veikindum. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að bíða með ákvarðanatöku í málinu þar til gögn hafa orðið til og borist frá heilbrigðisyfirvöldum. Í flestum tilvikum berast gögn frá göngudeild sóttvarna áður en ákvörðun Útlendingastofnunar er birt en til eru allmörg dæmi um hið gagnstæða.

Þá telur Rauði krossinn upplýsingar úr sjúkraskrá oft gefa tilefni til frekari rannsóknar og greiningar á andlegum eða líkamlegum veikindum umsækjenda með öflun ítarlegri vottorða. — Og hér kemur áhugaverði hluturinn: „Töluvert ber á því að Útlendingastofnun fellst ekki á að veita umsækjendum frest til að afla slíkra gagna sjálfir.“

Á mannamáli þýðir þetta það að Útlendingastofnun aflar sjálf ekki þessara gagna þótt hún hafi skyldu til þess samkvæmt lögum að gera það að sínu eigin frumkvæði og stendur í vegi fyrir því að umsækjendur geti gert það sjálfir, fellst ekki á heimild til þess að leyfa umsækjendum að afla slíkra gagna sjálfir til að geta sýnt fram á að þeir tilheyri hópi sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Áfram segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Enn fremur eru umsækjendur ítrekað látnir bera hallann af því ef gögn skortir sem varpa ljósi á andlega eða líkamlega heilsu viðkomandi.“

Útlendingastofnun sinnir ekki sinni frumkvæðisskyldu að afla gagnanna sjálf, veitir ekki rýmri tímafresti til þess að umsækjandi geti aflað þeirra sjálfur og lætur svo bitna á umsækjendum að þeir hafi ekki náð að afla upplýsinganna sem Útlendingastofnun átti að afla en Útlendingastofnun kom í veg fyrir að flóttamenn gætu aflað. Hljómar þetta ómögulegt? Já, ég held að það sé einmitt viljandi gert. Það heyrist mér að Rauði krossinn haldi líka.

En áfram heldur, með leyfi forseta:

„Afleiðingar þessarar vanrækslu stofnunarinnar geta verið alvarlegar þegar umsækjendur sem í raun falla undir hugtakaskilgreiningu 6. tölu. 3. gr. útl. fá ekki viðurkenningu á stöðu sinni“ — sem hluti af fólki sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu — „ þar sem ekki hefur farið fram rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útl. Á þetta einnig við í málum þar sem um er að ræða einstaklinga sem falla beinlínis að einhverju þeirra atriða sem talin eru upp í 6. tölul. 3. gr. útl., svo sem fórnarlömb mansals, fólk með geðraskanir og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi og vísbendingar liggja fyrir um afleiðingar þess á viðkomandi. Hefur umræddur 15 daga kærufrestur því oft nýst talsmanni og umsækjanda til nauðsynlegrar gagnaöflunar í því skyni að varpa ljósi á sérstaklega viðkvæma stöðu viðkomandi.“

Sem sagt þessir 15 dagar sem einstaklingur hefur til að ákveða hvort hann vilji kæra eða ekki hafa verið notaðir til að þýða ákvörðun Útlendingastofnunar og afla gagna, sem Útlendingastofnun hefði átt að afla en gerði það ekki sjálf, til þess að í raun þvinga Útlendingastofnun til að vinna vinnu sem henni ber samkvæmt lögum að vinna. Þetta er alveg ótrúlegt, virðulegi forseti, en það er vissulega meira sem í þessu ákvæði er falið og því verð ég að óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.