Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Fyrir þá nátthrafna sem eru að byrja að horfa á þessa útsendingu þá er ég að fara yfir nokkur þau lög og sáttmála sem Ísland hefur skrifað undir, sem lög um útlendinga byggja á. Bent hefur verið á að þetta frumvarp brjóti í bága við ýmsar greinar ... þessara sáttmála. Mig langar því til að fara í gegnum nokkrar af þeim greinum sem snerta þetta frumvarp. Ég ætla þó ekki að fara í gegnum allt heldur bara ákveðnar greinar.

Fyrir þá sem ekki muna tók mannréttindasáttmáli Evrópu gildi sem lög á Íslandi 30. maí 1994. Í 1. gr. sáttmálans, undir yfirskriftinni Skylda til að virða mannréttindi, stendur, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar skulu tryggja hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem skilgreind eru í I. kafla þessa samnings.“

Frú forseti. Það er eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir benti á: Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar, sem byggir á þessum sáttmála, gildir fyrir alla þá sem eru í íslenskri lögsögu.

I. kaflinn fjallar um réttindi og frelsi og 2. gr. er um rétt manns til lífs:

„Engan mann skal af ásettu ráði svipta lífi, nema sök sé sönnuð og fullnægja skuli refsidómi á hendur honum fyrir glæp sem dauðarefsingu varðar að lögum.“ — Svo koma reyndar viðbætur seinna sem banna dauðarefsingu.

3. gr. fjallar um bann við pyndingum og þar segir, með leyfi forseta:

„Enginn maður skal sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“

Já, það er gott að hafa það í huga.

Í 5. gr. er fjallað um réttinn til frelsis og mannhelgi og í 1. mgr. segir, með leyfi forseta:

„Allir menn eiga rétt til frelsis og mannhelgi. Engan mann skal svipta frelsi nema í eftirfarandi tilvikum og þá í samræmi við þá málsmeðferð sem segir í lögum. Tilvikin eru:

a. lögleg gæsla manns sem dæmdur hefur verið sekur af þar til bærum dómstóli;

b. lögleg handtaka eða gæsla manns fyrir að óhlýðnast lögmætri skipun dómstóls eða til að tryggja efndir lögmæltrar skyldu;

c. lögleg handtaka eða gæsla manns sem efnt er til í því skyni að færa hann fyrir réttan handhafa opinbers valds, enda hvíli á honum rökstuddur grunur um afbrot eða með rökum sé talið nauðsynlegt að koma í veg fyrir að hann fremji afbrot eða komist undan að svo búnu;

d. gæsla ósjálfráða manns samkvæmt löglegum úrskurði vegna eftirlits með uppeldi hans eða lögmætrar gæslu í því skyni að færa hann fyrir réttan handhafa opinbers valds;

e. lögleg gæsla manns til að koma í veg fyrir að smitandi sjúkdómur breiðist út eða manns sem er andlega vanheill, áfengissjúklingur, eiturlyfjasjúklingur eða umrenningur;

f. lögleg handtaka eða gæsla manns til að koma í veg fyrir að hann komist ólöglega inn í land eða gæsla manns sem vísa á úr landi eða framselja.“

Þarna kom loksins setningin sem tengist þessu. Það má svipta þig frelsi til að vísa þér úr landi.

Frú forseti. Ég sé að ég rétt komst í gegnum 1. mgr. 5. gr. og óska því eftir að komast aftur á mælendaskrá til að fara yfir 2., 3. og 4. mgr. 5. gr.