153. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:42]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að tala svolítið mikið um þær afleiðingar sem þetta frumvarp mun hafa ef það verður að lögum. Mér sýnist að meiri hlutinn sé svolítið tregur til að hlusta á okkur stjórnarandstöðuþingmenn tala um þetta frumvarp og þar af leiðandi hlusta á okkur þegar kemur að greiningu á afleiðingum frumvarpsins. Ég legg því til að við hlustum á sérfróða aðila og sérfræðinga í nákvæmlega þessum málaflokki og það sem hefur komið fram í umfjöllun þeirra um þetta frumvarp. Rauði krossinn sendi inn umsögn, sem ég hef verið að tala um frekar oft í kvöld, og þar er heill kafli um afleiðingar frumvarps til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Dómsmálaráðherra hefur nýverið lagt fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga. Frumvarpið tekur því miður ekki á þeim mikla vanda sem framangreindur hópur stendur frammi fyrir hér á landi en Rauði krossinn telur nauðsynlegt að tekið verði sérstakt tillit til umsækjenda sem fastir eru réttindalausir á Íslandi. Með ákvæði 6. gr. frumvarpsins er lögð til sú grundvallarbreyting á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd að réttur til þjónustu verður felldur niður 30 dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar í máli þeirra en verði frumvarpið að lögum yrðu afleiðingar þessa ákvæðis gríðarlegar. Áhrif tillögunnar á stöðu, velferð og mannvirðingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eru nokkuð augljós. Réttur þeirra til framfærslu, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu fellur niður og því er fyrirséð að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verða heimilislaus án framfærslu. Ekki má heldur draga úr mikilvægi þess að fólk njóti grunnheilbrigðisþjónustu á meðan það dvelur hér á landi.

Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misbeytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast, samhliða breytingunni.“

Virðulegur forseti. Þetta er eiginlega orðrétt það sem allir þingmenn sem hingað hafa komið upp í pontu í kvöld hafa sagt hvað varðar afleiðingar þessa frumvarps. Það liggur skýrt fyrir að afleiðingarnar sem þessar breytingar á lögum um útlendinga munu hafa eru íþyngjandi og kostnaðarsamar fyrir grunnkerfin okkar, fyrir félagslegu þjónustuna okkar, fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir lögregluna. Ég þarf ekkert að fara út í einhvers konar félagsfræðilegar rannsóknir um aukna afbrotatíðni meðal fólks í bágri stöðu eða neitt svoleiðis. Við erum í þeirri stöðu, og við erum heppin, að vera velferðarsamfélag. Við erum ríkt land. Við höfum möguleika á því að bjóða þetta fólk velkomið, á því að koma mannúðlega fram við það og við höfum möguleika á því að einfaldlega sleppa þessari lagabreytingu, forseti. Það er ekkert að núverandi lögum. Þetta er eitthvað sem ég er búin að segja svo oft hér í kvöld og hefur örugglega komið margoft fram í ræðum hv. þingmanna sem stigu í pontu á undan mér, og líka áður en ég kom inn á þing í dag, og ég ætla að segja það einu sinni enn og örugglega ekki í síðasta skipti: Það ríkir sátt um núverandi útlendingalög. Það sem ríkir ekki sátt um í núverandi frumvarpi varðar túlkunina á lögunum. Það að Útlendingastofnun kjósi að túlka lögin á þröngan og íþyngjandi hátt þýðir samt ekki að lögin hafi ekki verið samþykkt í sátt. Ég skil einfaldlega ekki þessa þörf fyrir að umbylta heilum málaflokki og heilum lögum sem mun hafa kostnaðarsamar afleiðingar í för með sér til þess eins að koma einhverju frumvarpi í gegn, misheppnuðu frumvarpi sem hefur verið lagt fram fimm sinnum en aldrei komist í gegn.

Virðulegur forseti. Ég myndi segja að það að þetta frumvarp hafi aldrei komist í gegn sé smávísbending um hversu illa unnið það er og líka vísbending um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn vinnur málin sín illa. Ef þau hefðu viljað vinna þetta frumvarp vel, ef þau vildu verulega og í alvörunni vilja bæta stöðuna í þessum málaflokki og auka skilvirknina, hefði þetta frumvarp verið unnið í samráði og í samstarfi við sérfróða aðila og allar þessar athugasemdir og umsagnir teknar til greina, sem eru ekki að berast í fyrsta skiptið við framlagningu frumvarpsins á þessu löggjafarþingi. (Forseti hringir.) Þessar umsagnir og athugasemdir hafa borist margoft áður og ef það hefði verið vilji (Forseti hringir.) fyrir því að laga þetta frumvarp hefði það verið tekið til greina.

Virðulegi forseti. Þú mátt alveg setja mig á mælendaskrá aftur. Ég er ekki búin.