Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að fjalla um endurtekna umsókn sem væri háð því að sýnilega auknar líkur væru á að nýjar upplýsingar myndu leiða til annarrar niðurstöðu. 24. gr. stjórnsýslulaga, um rétt á endurupptöku máls, kveður á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geti ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum laganna. Ný málsmeðferð veitir umsækjendum hins vegar minna réttaröryggi en lágmarkskrafa stjórnsýslulaganna. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju það er verið að reyna þetta. Er þetta ekki enn eitt dæmið um það sem fer síðan í gegnum dómskerfið og einhver segir: Nei, þetta gengur ekki svona, og þá verður þetta bara dauður lagabókstafur? Er ekki ríkisstjórnin einmitt að reyna að fara einfaldlega gegn stjórnsýslulögum og er alveg sama? Mér finnst þetta rosalega skrýtið.

Förum aðeins yfir í 8. gr. frumvarpsins. Það er þessi grein um vernd í öðru ríki sem er í rauninni ákveðin sjálfkrafa synjun óháð raunverulegum aðstæðum viðkomandi ríkis eða viðkomandi umsækjanda. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í umsögn Amnesty International:

„Aðbúnaður flóttafólks í Grikklandi hefur m.a. verið gagnrýndur af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International. Fjölmargar heimildir, svo sem skýrslur Evrópuráðsins, og mannréttinda- og frjálsra félagasamtaka gefa til kynna að raunverulegri stöðu flóttafólks í Grikklandi sé verulega ábótavant. Í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 513/2021 kemur beinlínis fram að það sé mat hennar að það sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun.“

Þetta skiptir lykilmáli hérna því að það er ákveðin regla sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „non-refoulement“. Ég ætla að útskýra hana. Það má ekki flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti þar eða við flutninginn ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Það er það sem þessi regla þýðir. Þetta virðist vera það sem íslenskum stjórnvöldum er bara alveg sama um. Það er bara ekki þeirra vandamál einhvern veginn; setjum þetta bara upp svona og við viljum bara koma fólki burt. Okkur er alveg sama þó að við brjótum einhverjar reglur um það að viðkomandi lendi á slæmum stað þó að það sé í raun og veru bannað.

Það býður bara upp á raðir af málum í gegnum Mannréttindadómstólinn. En kannski eru stjórnvöld það heppin að þetta fólk er einmitt yfirleitt ekki í stöðu til þess að reka nein dómsmál af því það þarf að klára dómsmálaferlið hérna á Íslandi fyrst og þetta fólk er ekki í neinni stöðu til þess að geta sótt rétt sinn í gegnum íslenska dómstóla þegar það er á götunni í Grikklandi. Þannig að ef það kemur upp að íslensk stjórnvöld brjóti gegn þessu og séu að setja fólk í ómannúðlegar eða vanvirðandi aðstæður, bara þannig að það geti ekki veitt sér björg, hvað þá farið og reynt að reka dómsmál til að halda uppi rétti sínum hjá íslenskum dómstólum, þar af leiðandi ekki farið með mál fyrir Mannréttindadómstólinn, þá eru íslensk stjórnvöld einhvern veginn stikkfrí. Ef þeim tekst að koma slíkum aðila af landi þá getur hann ekki leitað réttar síns. Ef það er einhver sem lendir ekki í þessari villu þá getur hann leitað réttar síns en fær það ekki, hann á ekki rétt á því, af því að hann er greinilega í nægilega góðri stöðu til þess að reka mál sitt sem gæti einmitt bent til þess að viðkomandi sé ekki í það slæmri stöðu alla vega, slæmri stöðu kannski en ekki það slæmri að hann geti ekki leitað réttar síns. Þetta er bara eitt dæmi um svo mörg þannig að ég ætla að halda áfram í næstu ræðu þannig að ef forseti getur sett mig aftur á mælendaskrá væri það vel þegið.