Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Maður nær vart að klára setninguna hérna í pontu áður en tíminn er búinn þannig að maður er alltaf með einhverjar endasleppar ræður og þá fer helmingurinn af nýrri ræðu í að rifja upp hvað maður var að tala um. Ég var að tala um þjónustusviptingu skv. 6. gr. frumvarpsins, þann hóp fólks sem henni er beint að. Þjónustusviptingunni er beint gegn fólki sem stjórnvöld eru ósammála um það hvort viðkomandi geti farið heim eða ekki. Þetta eru einstaklingar sem telja sér ekki fært að fara úr landi en stjórnvöld hafa komist að niðurstöðu. Þau eru búin að kveða upp lokaúrskurð og þar með stendur það, þú getur alveg farið heim.

Dæmin sem ég var að taka voru dæmi sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi í máli sínu áðan, sem eru dæmi sem eru tekin í skýrslu Rauða krossins um einstaklinga í þessari stöðu. Þar eru nefndar konur sem hafa orðið fórnarlömb mansals í heimalandi sínu. Þó að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi komist að þeirri niðurstöðu að þær eigi samt ekki rétt á dvalarleyfi hér á landi þá telja þær sig ekki geta farið heim. Þessu er hæstv. dómsmálaráðherra og væntanlega Útlendingastofnun ósammála og vilja bara að þessi kona komi sér úr landi. Það á að koma henni úr landi með því að svipta hana þeirri verulegu takmörkuðu aðstoð sem hún fær hér á landi, sem er sem sagt þak yfir höfuðið. Ef konan er ein á ferð er líklegt að hún sé bara með herbergi einhvers staðar, býr líklega með öðru ókunnugu fólki, ólíklega öllu af sama þjóðerni eða sem talar sama tungumál. Vandamálið við þetta er ekki bara það að hún er ekkert að fara að fara þótt hún sé svipt allri þjónustu, hún er bara að fara að lenda í enn verri stöðu.

Það sem skiptir kannski einna mestu máli — vegna þess að það eru alls konar varnaglar í okkar kerfi fyrir útlendinga í neyð. Kannski myndi sveitarfélagið sjá aumur á henni eftir einhverra mánaða stjórnsýslumeðferð á þeirri umsókn og líta á hana sem útlending í neyð, veita henni einhvers konar fjárhagsaðstoð, kannski húsaskjól jafnvel, en það sem hún á ekki rétt á er það sem hælisleitendur eiga rétt á, og fyrir því þurfti að berjast í mörg ár, þótt það snúist ekki bara um hagsmuni hælisleitenda heldur hagsmuni samfélagsins alls og það er geðheilbrigðisþjónusta. Það verður væntanlega það fyrsta sem þau eru svipt og eiga engan rétt á nema bara þegar í óefni er komið, einhvers konar neyðar- eða bráðaþjónusta, þótt ég þekki reyndar dæmi þess að fólki í þessari stöðu sé jafnvel vísað frá bráðamóttöku líkt og við heyrum reyndar því miður of mörg dæmi um af ýmsu tagi.

En þetta sýnir okkur að þessi tillaga er með öllu óúthugsuð. Að baki henni er einhver þrjóska í kerfinu; við erum búin að segja nei og þá átt þú bara að fara. Ég get alveg skilið að það hljómi eðlilega í eyrum fólks sem þekkir ekki til, sem hefur ekki hitt þessa einstaklinga, hefur ekki reynslu af því að starfa í þessum málaflokki, sérstaklega ekki frá þeirri hlið, og séð ástæðurnar fyrir því að fólk er í þessari stöðu og afleiðingarnar sem verða af þessum breytingum.

Það er nefnilega þannig að það sýnir kannski svolítið huginn á bak við þetta frumvarp sem sannarlega hefur verið svona — það hefur ýmsu verið hnikað til á þessum fimm árum sem er búið að vera að reyna að troða því í gegnum þingið. Þó að breytingarnar hafi alltaf verið svona algerlega „minimal“, lágmarks, þá voru upphaflega engar undantekningar á þessu. Það átti bara að svipta fólk þjónustu eftir 30 daga. Bless, bless. Þá var einhver sem benti á það: Heyrðu, þú getur ekki sett börn út á göturnar. Þú getur ekki sett fólk með langvarandi sjúkdóma eða fatlað fólk eða þungaðar konur, þú getur ekki sett fólk á götuna endilega þótt það sé komið með synjun. Þá er bætt inn þessari klausu yfir undanþágur, það eru einstaklingar sem eru undanþegnir. Ég ætla að fá að lesa hana upp vegna þess að inni í þessari klausu eru ekki einstæðar konur eða þolendur mansals. Það eru sem sagt börn, foreldrar eða umsjónarmenn þeirra, aðrir heimilismenn sem teljast til ættingja barnanna, barnshafandi konur, alvarlega veikir einstaklingar og fatlaðir einstaklingar með langvarandi stuðningsþarfir, punktur. Þessar konur sem eru fórnarlömb mansals telja sig ekki geta farið heim vegna þess en kærunefnd útlendingamála mála hefur sagt: Nei, þær munu enda á götunni hér á landi. Viljið þið samþykkja þetta, í alvörunni?