Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég er búin að vera að fara yfir stöðu útlendinga sem er búið að synja um alþjóðlega vernd hér á landi en sem geta einhverra hluta vegna ekki farið úr landi og ekki er hægt að flytja úr landi. Ég er búin að fara yfir afleiðingar sem þetta frumvarp sem við erum að ræða hér, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, mun hafa fyrir stöðu þessa hóps og ég er líka ítrekað búin að benda á það að þessi hópur mun stækka allverulega ef þetta frumvarp verður að lögum. Rauði krossinn kemur inn á í skýrslu sinni tillögur til úrbóta til stjórnvalda, eitthvað sem gæti raunverulega aðstoðað þennan hóp, eitthvað sem gæti í alvörunni hjálpað til en ekki aukið á vandann eins og til stendur. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sumir þeirra sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hafa í reynd verið strandaglópar hér á landi frá árinu 2017 og því dvalið hér í fimm ár. Þar sem enga lausn er að finna fyrir þessa einstaklinga í núgildandi lögum telur Rauði krossinn rétt að einhvers konar lausn verði tekin upp í frumvarp dómsmálaráðherra sem t.a.m. auðveldar þeim að komast á vinnumarkað og framfæra sér og sínum. Jafnframt leggur Rauði krossinn til að umsækjendur sem dvalið hafa hérlendis í ákveðinn tíma eftir að lokasynjun liggur fyrir í máli þeirra geti sótt um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 51. gr. gildandi útlendingalaga heimilar þetta ekki og gerir kröfu um að umsókn um dvalarleyfi sé lögð fram áður en komið er til landsins. Í Svíþjóð geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni þó sótt um atvinnuleyfi án þess að þurfa að yfirgefa landið og telur Rauði krossinn rétt að litið verði til þess ákvæðis við breytingar á lögum um útlendinga. Yrði þá til staðar einhvers konar ljós í myrkrinu fyrir þá sem tilbúnir væru til að aðlagast íslensku samfélagi og setjast hér að.

Þá telur Rauði krossinn rétt að framangreindum umsækjendum verði gert auðveldara fyrir að öðlast bráðabirgðadvalar- og -atvinnuleyfi á meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi svo þeir þurfi ekki að þiggja framfærslu frá íslenskum yfirvöldum. Reynsla Rauða krossins hefur verið sú að langflestir umsækjendur vilji vinna og framfæra sjálfum sér og fjölskyldu sinni í stað þess að vera á framfæri íslenska ríkisins.“ — Að sjálfsögðu er það þannig.

„Með vísan til framangreinds telur Rauði krossinn á Íslandi rétt að dómsmálaráðherra skoði aðstæður umsækjenda sem fengið hafa lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og ekki er hægt að flytja úr landi. Mikilvægt er að fundin verði úrlausn fyrir þennan hóp umsækjenda sem býr við vonlausar aðstæður og mikla jaðarsetningu sem eykur enn frekar á félagslega einangrun þeirra, kemur í veg fyrir að þeir eigi kost á að skapa sér sitt eigið lifibrauð og ýtir enn frekar undir útskúfun úr íslensku samfélagi.“

Þar hafið þið það, virðulegi forseti.

„Er það mat Rauða krossins að í stað ákvæðis 6. gr. frumvarps til laga um breytingar á lögum um útlendinga, varðandi niðurfellingu þjónustu 30 dögum eftir lokasynjun, væri nær að auðvelda fólki sem bíður endursendingar um lengri tíma að sjá sér sjálft farborða.

Af þeim sökum leggur Rauði krossinn eindregið til að fallið verði frá þeirri breytingu sem kveðið er á um í 6. gr. frumvarpsins og hvetur dómsmálaráðherra til að skoða aðstæður framangreinds hóps umsækjenda sérstaklega og taki á þeim gríðarstóra vanda sem hann býr við hér á landi.“

Ég verð að taka heils hugar undir með Rauða krossinum hér. Það sem er verið að búa til með þessari 6. gr. er ekki bara einhvers konar kúgunargildra til þess að reyna að kúga fólk til að fara frá Íslandi. Það er hérna hópur sem getur ekki farið neitt. Hér er t.d. hópur írakskra ríkisborgara sem getur ekki snúið aftur til heimalands síns af ótta við ofsóknir og að hafa ekki gild ferðaskilríki þar að auki. Í staðinn fyrir að dæma þau til örbirgðar, dæma þau til algerar örvæntingar og útilokunar úr samfélaginu þar sem þau hafa í engin hús að venda, hafa engan aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafa engan aðgang að mat, þau mega ekki vinna, hvernig væri að gefa þeim leyfi til að vinna? Það vilja þau langflest, öll sem geta og vilja vinna. Það væri miklu mannúðlegri og gáfulegri leið. Okkur vantar vinnandi hendur. Okkur vantar fólk í hin ýmsu störf. Okkur vantar ekki heimilislaust fólk á götum úti í algerri örvæntingu. Það er ekki eitthvað sem íslenskt samfélag vantar, hvorki þarf né vill, og það er alger firra — algjör firra — að í stað þess að hjálpa þessum hópi eigi að fjölga í þessum hópi.