Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[04:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Já, mig grunar að það sé tilefni til að fara í og rifja upp sögulegan bakgrunn þeirra mannréttinda sem við erum að ræða hér þar sem ég óttast að það sé kannski að gerast sem gjarnan gerist í tengslum við mannréttindi og er ástæðan fyrir því að þau hafa verið sett á blað og samþykkt á alþjóðlegum vettvangi sem grundvallarréttindi; það er það að þau eiga til að gleymast akkúrat þegar reynir á. Ég óttast að akkúrat við samningu þessa frumvarps hafi þessi réttindi ekki verið tekin jafn alvarlega og ætlunin var þegar þau voru, hvað eigum við að segja, sett á blað á alþjóðlegum vettvangi. Ég hvet hv. þm. Björn Leví Gunnarsson til þess að rifja það upp fyrir okkur hvers vegna við erum með þessi réttindi, vegna þess að það er ekki af neinni tilviljun. Það er akkúrat til þess að tryggja ákveðin lágmarksréttindi og sérstaklega við aðstæður þar sem það er freistandi að gera það ekki, að brjóta gegn þessum grundvallarréttindum.

Við erum hérna að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og ég hef ákveðið að fara í smáatriðum yfir hvert og eitt ákvæði frumvarpsins og útskýra það í ljósi minnar reynslu í þessum málaflokki. Ég held að það sé sérstök þörf á að fara yfir þessa grein, 7. gr., vegna þess að hún er talsvert lögfræðileg og ég held að það sé mjög erfitt að átta sig á því hvað er í gangi þarna nema vera bæði búinn að læra talsvert af lögfræði og þekkja málaflokkinn, til þess að átta sig á því hvað frumvarpshöfundum gengur til.

Ég ætla að halda áfram þar sem sleppti síðast við lestur upp úr greinargerð um þetta ákvæði í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Lagt er til að endurteknar umsóknir skuli aðeins teknar til meðferðar ef nýjar upplýsingar liggja fyrir í málinu sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn umsækjanda skv. 24. gr. Mælikvarðann um „sýnilega auknar líkur“ verður að túlka með hliðsjón af því að líkur séu á því að önnur niðurstaða fáist í málið vegna upplýsinga sem ekki lágu fyrir við meðferð upphaflegrar umsóknar. Þá er jafnframt lagt til að umsækjandi þurfi að vera á landinu þegar endurtekin umsókn er lögð fram og að óafgreiddar umsóknir falli niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur. Tillagan byggist á því að eitt grunnskilyrða fyrir alþjóðlegri vernd er að umsækjandi sé á landinu þegar umsóknin er lögð fram og þykir því eðlilegt að óafgreiddar umsóknir falli niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar enda hafi ekki þótt ástæða til að fresta réttaráhrifum hennar eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur.“

Þetta gæti kannski hljómað eðlilega ef við værum að tala um endurteknar umsóknir, ef við værum að tala um það að einstaklingur væri búinn að fá niðurstöðu í máli sínu og allri málsmeðferð lokið og hann ákveður bara að sækja um aftur. Þá gæti þetta hljómað skynsamlega og það er þannig sem er verið að snúa á lesandann í þessu frumvarpi vegna þess að þarna er alls ekkert verið að tala um endurteknar umsóknir. Þarna er verið að tala um þær aðstæður þegar einstaklingur hefur lokið málsmeðferð hér á landi, er enn á landinu, óskar eftir endurupptöku máls síns vegna breyttra aðstæðna eða nýrra gagna, svo sem heimilda, í allri stjórnsýslunni, og þykir eðlileg meginregla og ein augljósustu réttindi borgaranna í samskiptum við stjórnvöld. Það finnst ekki öllum að þau réttindi eigi að ná til allra, en það er nú bara svoleiðis að þau gera það samt. Það sem gerist þarna er t.d. að ef einstaklingur er fluttur nauðugur úr landi á meðan umsókn um endurupptöku er til meðferðar þá fellur hún niður. Þetta þýðir að stjórnvöld geta bara sleppt því að kanna hvort ný gögn breyti málinu eða aðstæður séu breyttar með því einfaldlega að þvinga fólk úr landi. Gott dæmi er mál Husseins Husseins sem var fluttur úr landi áður en niðurstaðan var komin í máli hans hér á landi fyrir stuttu síðan. Miðað við þessar málsmeðferðarreglur yrðu slík tilvik afgreidd þannig að hann hefði ekki átt neinn kost á að koma aftur þrátt fyrir að önnur niðurstaða væri komin í málið. (Forseti hringir.)

Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.