Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Sem þingmönnum ber okkur að vísa ekki til orðaskipta á nefndarfundum, hvað þá á nefndarfundum utanríkismálanefndar sem fjallar um þætti eins og þjóðaröryggi. En þar sem hæstv. dómsmálaráðherra ákvað að fara í það sem okkur greindi á um á fundi hv. utanríkismálanefndar fyrir skemmstu þá vil ég bara ítreka það, frú forseti, að ég var að vísa í tvær ræður hæstv. dómsmálaráðherra hér í gær. Þar staðhæfði hann að viðræður væru hafnar við Isavia um samstarf varðandi notkun á flugvél Isavia, að það væri hagkvæmari lausn. Þetta ítrekaði hann í tveimur ræðum sínum í andsvörum í gær. Þetta er það sem ég var að vísa til. En þetta er í raun og veru lausn sem er alls ekki hagkvæmari vegna þess að til þess að Isavia bjóði fram þá lausn sem ætti að koma í staðinn fyrir vél Landhelgisgæslunnar þyrfti að fara í gríðarlega mikinn kostnað í tækjakaupum, þjálfun o.s.frv. á þeirri vél. (Forseti hringir.) Þetta er því ekki rétt og ég bið hæstv. dómsmálaráðherra að standast nú starfsreglur (Forseti hringir.) þingmanna og vera ekki að bera hér á borð í þingsal orðaskipti sem farið hafa fram á lokuðum nefndarfundum sem okkur ber að greina ekki frá hér í þingsal.