Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég er að fjalla hér um flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og er kominn að kafla eða greinum sem svo sannarlega hafa dálítið mikið með þetta mál að gera. Fyrri greinin sem ég ætla að fara í núna tekur reyndar á brottvísun fólks sem þarf að vísa úr landi vegna öryggis eða allsherjarreglu en við skulum bara fara í þetta. Með leyfi forseta, 32. gr. um brottvísun:

„1. Aðildarríkin skulu ekki víkja úr landi flóttamanni, sem löglega dvelur í löndum þeirra, nema vegna öryggis landsins eða allsherjarreglu.

2. Brottvísun slíks flóttamanns skal einungis framkvæmd eftir úrskurði, sem kveðinn sé upp með lögákveðnum hætti. Þar sem knýjandi ástæður vegna öryggis landsins eru því ekki til fyrirstöðu, skal flóttamanninum leyft að leggja fram sannanir fyrir sakleysi sínu og áfrýja og láta mæta fyrir sig í því skyni fyrir lögbæru stjórnvaldi eða manni eða mönnum, sem sérstaklega eru tilnefndir af lögbæru stjórnvaldi.

3. Aðildarríkin skulu gefa slíkum flóttamanni hæfilegan frest til þess að leita löglegrar landvistar í öðru landi. Aðildarríkin áskilja sér rétt til þess að beita þeim ráðstöfunum innan lands, sem það telur nauðsynlegar, meðan þessi frestur er að líða.“

Eins og ég sagði fjallar þetta meira um þá sem ógna öryggi landsins en ef við lesum 1. mgr. aftur þá stendur að aðildarríkin skuli ekki víkja úr landi flóttamanni sem löglega dvelur í löndum þeirra. Það er mikilvægt að hafa í huga.

Þá skulum við fara í næstu grein, 33. gr., en hún fjallar um bann gegn brottvísun eða endursendingu. Þar stendur í 1. mgr.:

„Ekkert aðildarríki skal vísa flóttamanni brott eða endursenda hann á nokkurn hátt til landamæra ríkis, þar sem lífi hans eða frelsi mundi vera ógnað vegna kynþáttar hans, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana.“

Gott dæmi um þetta væri ef einhver kæmi frá Venesúela og íslenska ríkið vildi taka þann flóttamann og fara með til Venesúela þar sem lífi hans og frelsi myndi vera ógnað, t.d. vegna stjórnmálaskoðana. Fyrir ykkur sem voruð að hlusta í nótt þá fengum við að heyra frásagnir af því hvernig sérsveitir lögreglunnar þar hafa myrt tugi þúsunda manna án dóms og laga. Þetta er beint dæmi um það af hverju má ekki endursenda til þess lands. Það er mikilvægt að átta sig á því að þarna er verið að setja algert bann við slíku og að við Íslendingar höfum undirgengist þennan samning og þurfum því að fara eftir þessu og passa að okkar lög og framkvæmd og verklag og reglugerðir fylgi þeim reglum. Aftur er það svo þannig að ef þetta er einhver sem er hættulegur öryggi landsins þá gildir þessi grein ekki, en hún gildir um aðra.

Þar sem ég á aðeins rúmar 30 sekúndur eftir ætla ég bara að klára þennan kafla og lesa 34. gr. um veitingu ríkisborgararéttar, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu, eftir því sem mögulegt er, greiða fyrir því, að flóttamenn geti samanlagazt aðstæðum í landinu og öðlazt þar þegnrétt. Einkum skulu þau gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að flýta fyrir veitingu ríkisborgararéttar og lækka svo sem frekast er unnt öll gjöld og kostnað, sem henni eru samfara.“

Með öðrum orðum eigum við að hjálpa flóttamönnum. — Ég á eftir eina grein hér sem mig langar að fara í í næstu ræðu, frú forseti, ef þú vildir vera svo góð að bæta mér á mælendaskrá.