153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

skýrsla ríkisendurskoðanda um fiskeldi á Íslandi.

[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Það sem skiptir máli er að við búum þessari ört vaxandi atvinnugrein skýran ramma sem tekur tillit til byggðanna, til atvinnugreinarinnar en líka til náttúru, til umhverfis og að stjórnsýslan sé sterk og gegnsæ. Ég óttaðist það auðvitað áður en ég heyrði svar forsætisráðherra að — ég þakka fyrir að þessi ríkisstjórn var t.d. ekki þegar við vorum að móta löggjöf um raforkuna. Gjöldin af raforkunni renna til samfélagsins. Þar eru tímabundnir samningar. Það má segja að ef viðhorf þessarar ríkisstjórnar hefðu mótað regluverkið í kringum raforkuna, sem skýr rammi er sem betur fer um, þá værum við örugglega að tala um það að íslensk raforka væri kannski undir Norsk hydro í dag. Það þarf að vera strax skýrt hvernig ramma við ætlum að móta í kringum atvinnugrein sem býður upp á mikil tækifæri en þarf líka að gera mjög skýrar kröfur til. Þar komum við einmitt að prinsippum í pólitík, um auðlindagjöld sem þessi ríkisstjórn hefur ekki viljað taka. (Forseti hringir.) Og hver voru skilaboð þessarar ríkisstjórnar á þessu ári? (Forseti hringir.) Þau voru að lækka gjöldin á fiskeldi í landinu. Það eru einu skilaboðin sem hafa komið frá ríkisstjórninni. (Forseti hringir.) Um leið vil ég hvetja hæstv. ríkisstjórn til að taka þá þessi orð hæstv. ráðherra alvarlega og taka skýrsluna til sín og vinna úr henni. (Forseti hringir.) Það eru miklir hagsmunir fólgnir, bæði fyrir fiskeldisfyrirtækin, landsbyggðina en ekki síst almenning og samfélagið allt.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að í óundirbúnum fyrirspurnum hafa ræðumenn tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í síðari ræðu.)