153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

aukinn fjöldi andláta á Íslandi.

[15:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það var dálítið erfitt að átta sig á hvað væri fram undan annað en að spjalla við embættismenn. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að þetta verði sett í einhvern formlegri farveg en óformleg samtöl þeirra embættismanna sem undir ráðherrann heyra. Ef þetta er t.d. afleiðing aðgerða stjórnvalda annars vegar, lokun samfélagsins meira og minna, og hins vegar annarra þátta sem kunna að hafa áhrif þá er það auðvitað eitthvað sem er nauðsynlegt að draga fram og ná utan um, ekki bara til að forðast að stjórnvöld geri viðlíka mistök aftur heldur held ég að það samfélag sem lenti hér í því að vera meira og minna undir takmörkunum yfir langt tímabil eins og raunin varð eigi það skilið að fá þetta greint með fullnægjandi hætti.