153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

fundarstjórn forseta.

[16:02]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Bara örstutt, vegna þess að í músíkinni eru það oft feilnóturnar sem verða bestu nóturnar í spunanum. Hér var slegin örlétt feilnóta í umræðunni fyrr í dag sem gæti óvart hafa verið sannmæli en ráðherrann sem hér var til svara var að víkja að því að við erum auðvitað með þrískiptingu valdsins: dómsvaldið, löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Hér var það óvart kallað framkvæmdarveldið. Gæti það verið svo að við búum við framkvæmdarveldi, við ráðherraveldi sem er kannski alveg rosalega miklu stærra og öflugra heldur en vald okkar hérna í þessum sal til góðra verka eða jafnvel dómstólanna? Þetta er nú bara sagt á léttum nótum, en framkvæmdarveldið væri kannski réttnefni sem við ættum að ígrunda hvort eigi að fá að festa sig. En mér finnst mikill sómi að því, ef mönnum verður á í messunni eins og hér varð áðan, að menn komi bara og biðjist forláts, bæði forsætisráðherra og forseti Alþingis. Ég hrósa þeim fyrir það, svo það sé nú sagt líka.