Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 61. fundur,  6. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að fara hérna yfir ákveðinn bakgrunn í þessu máli sem er alveg nauðsynlegur til að fólk átti sig á hvað málið snýst um, hvaðan við erum að koma, hvert við erum að fara. Ég er að fara yfir greinargerð með frumvarpi til laga um mannréttindasáttmála Evrópu því að fjölmargar umsagnir benda okkur á að verið sé að ganga gegn þessum mannréttindasáttmála. Þetta er grundvallarviðmið okkar um það hvernig við höfum viljað haga samfélaginu okkar eftir seinni heimsstyrjöldina.

Ég er búinn að fara hérna yfir hvernig fyrirkomulagið var á þessum tíma og lýsingin eins og hún er hérna miðast við aðstæður sem voru þá, þannig að allt sem er í þessari greinargerð er ekki alveg hárnákvæmt. Það er ekki þessi nefnd sem talað hefur verið um hérna í nokkrum fyrri ræðum, hún er t.d. ekki lengur til staðar. En þetta er staðan eins og hún var 1993 í rauninni í kjölfar dóms sem íslenska ríkið fékk á sig hjá Mannréttindadómstólnum vegna þess að íslenska ríkið hafði verið dæmt fyrir að brjóta gegn tjáningarfrelsi Þorgeirs Þorgeirssonar rithöfundar fyrir að gagnrýna lögregluna og kalla hana einkennisklædd villidýr og ofbeldishrotta. Þetta braut gegn almennum hegningarlögum, 108. gr. almennra hegningarlaga, og var þetta í fyrsta sinn sem einn aðili, einstaklingur, rak mál sitt sjálfur þar og hafði sigur fyrir Mannréttindadómstól Evrópu gegn íslenska ríkinu. Í kjölfarið á því var tekið aðeins alvarlegar á því að sinna mannréttindum á Íslandi og þetta frumvarp er afleiðing þess.

Það er minnst á það hérna í upphafi greinargerðarinnar hvernig verið er að stíga skrefin inn í þetta nútímamannréttindaumhverfi. Ég var kominn að því þar sem verið er að fara yfir hlutverk ráðherranefndarinnar, með leyfi forseta:

„Hvert þátttökuríki Evrópuráðsins á skv. 14. gr. stofnskrár þess frá árinu 1949 einn fulltrúa í ráðherranefndinni og er það utanríkisráðherra. Ráðherranefndin hefur bæði úrskurðar- og eftirlitshlutverki að gegna varðandi kærur vegna brota gegn mannréttindasáttmálanum. Svo sem nánar er rakið í kaflanum um mannréttindanefndina“ — sem er ekki lengur til staðar — „hér að framan sendir hún skýrslu sína um hvort aðildarríki hafi brotið gegn sáttmálanum til ráðherranefndarinnar í samræmi við ákvæði 31. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Í tilvikum þeim, sem nánar eru rakin í kaflanum um mannréttindanefndina, úrskurðar ráðherranefndin skv. 32. gr. samningsins um hvort um brot sé að ræða.“

Ég læt vera að byrja á þessari málsgrein áður en ræðan klárast, hún er dálítið löng. En það er nefnilega mikilvægt að við erum að tala hérna um yfir 20 umsagnaraðila sem, eins og kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum áðan við forsætisráðherra, við höfum hlustað á áður. Við höfum tekið mark á þessum umsagnaraðilum áður; Rauða krossinum, UNICEF, Mannréttindaskrifstofu Íslands, öllum þessum aðilum sem láta sig mannréttindi varða hérna á Íslandi, því að það er mikilvægt. Þau benda okkur á það hvernig framkvæmd laga er ábótavant á Íslandi. Við erum með það í lögum að vernda ákveðin réttindi en það er ekki einu sinni farið eftir því.

Það varðar t.d. atriði sem er verið að bæta við í þessum lögum, þ.e. að viðkomandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, að Útlendingastofnun, framkvæmdarvaldið, hefur brotið gegn þessu mati sínu sem á að fara fram um hvort viðkomandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Nú er verið að bæta við fleiri svoleiðis skilgreiningum sem er þá hægt að brjóta enn frekar gegn af því að einhverra hluta vegna þá gerast hlutirnir ekki alltaf eins og lögin eru sett. Í þessu frumvarpi sem við erum að ræða hérna er verið að bæta við alls konar geðþóttaákvörðunum framkvæmdarvaldsins eins og þessari, þ.e. um sérstaklega viðkvæma stöðu, sem stjórnvöld geta einfaldlega haldið áfram að brjóta á fólki (Forseti hringir.) út af og sagt: Ja, þetta er ekki alveg ljóst í lögum, þetta er ekki alveg 100% skýrt og (Forseti hringir.) við túlkum þetta svona og túlkum þetta hinsegin. (Forseti hringir.) En það hafa komið niðurstöður dómstóla sem segja að þetta sé óásættanlegt. — Setja mig aftur á mælendaskrá, takk.