Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[15:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi bara lýsa yfir ánægju minni með svar hv. þingmanns um að hans mat sé að okkur sé betur borgið með EES-samninginn heldur en ekki. Eins og ég nefndi áðan er ég ekki ósammála honum í því að við eigum alltaf að gera eins vel og við getum og við höfum öll gott af því að fara yfir það reglulega hvort við getum gert hlutina með einfaldari hætti. Ekki ætla ég að halda því fram að skriffinnskan sé í lágmarki hjá Evrópusambandinu og að það sléttist ekki yfir á EES-samninginn.

Varðandi þau nýsköpunarverkefni sem hér eru þá er það vissulega ekki á kostnað almennings hér að þau séu í gangi og ég tel okkur eiga að leika hlutverk, bæði út frá loftslaginu og umhverfinu en líka út frá efnahagslegum tækifærum, að byggja hér upp þekkingargeira og græna nýsköpun þegar kemur að því verkefni okkar að bæði að menga minna en líka að taka til eftir okkur. Í því eru mjög fínar lausnir með ýmiss konar hætti, eins og mörg verkefnin á Íslandi sýna þar sem hægt er að bókstaflega ryksuga CO2 úr loftinu og koma einhvers staðar fyrir. Ég held að það sé bæði gott fyrir umhverfið en það er líka gott fyrir efnahagslíf okkar, sköpun starfa og þekkingargeira hér á landi.