Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[17:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ákvað að nota bara þetta pláss af því hv. þingmaður skoraði hálfpartinn á mig að segja skýrt að við tækjum ekki inn í okkar rétt þetta mál sem hann ræddi um, svokallað flugvallamál. Ég nefndi það í minni ræðu áðan að í mínum huga er ekki möguleiki á að innleiða það algjörlega óbreytt. Ég hef hins vegar trú á því og ég tel það mæta skilningi hver okkar augljósa staða er og það er ekkert erfitt samtal að eiga við sína kollega að sá hvati fyrir aðra að nota annan kost en að taka styttri flug þar sem losunin er mest, í því að taka á loft og lenda, eigi augljóslega ekki við um okkur. Við hoppum hvorki í lest né rafbíla eða hvað það er til að komast á milli staða. Við erum líka með gott mál í höndunum vegna þess að við höfum undirbúið það vel og við höfum til að mynda látið útbúa líkan sem sýnir einfaldlega afleiðingar af kerfinu, bæði fyrir okkur en líka fyrir önnur lönd. Það sem kemur líka bara í ljós er að það eru jaðardæmi í fyrirkomulaginu eins og það er sett upp núna þar sem kostnaðurinn er meiri en umhverfisáhrifin minni. Bara til að nefna dæmi þá er flugleiðin Berlín-Seattle-Berlín, þá er beint flug ekki í boði, en ef flogið er með amerísku flugfélagi um New Jersey er aukakostnaður á hvern farþega sex evrur, ef flogið er um Frankfurt með þýsku flugfélagi er kostnaðurinn 15 evrur en ef flogið er um Keflavík með Icelandair er aukakostnaður 38 evrur á hvert sæti. Samt er losunin minnst í þeim legg sem fer í gegnum Keflavík. Ég tel okkur, eins og ég segi, hafa unnið okkar heimavinnu, verið rökföst, málefnaleg, sinnt okkar hagsmunagæslu og ég trúi því að við munum fá þær aðlaganir sem þarf vegna þess að við ætlum ekki að leggja okkar samkeppnishæfni í rúst í millitíðinni áður en við fáum nægt framboð af einhverju sjálfbæru flugvélaeldsneyti til að fylla á vélarnar.