Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[18:31]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar bara fyrst og fremst að koma hérna upp og þakka hv. þingmanni fyrir hans fínu ræðu og yfirferð yfir sögulega þætti þessa máls, margt fróðlegt sem kom fram í máli hans eins og við má búast. Hér hefur verið talað um þjóðaratkvæðagreiðslur í dag og jafnvel í samhengi við það að vilji þjóðarinnar sé með einum eða öðrum hætti og að ríkisstjórnin ætti að taka það með í reikninginn. En ég verð að viðurkenna að ég hef fullan skilning á því að ríkisstjórn sem hefur ekki í hyggju að fara í ákveðna pólitíska vegferð sé ekki tilbúin til þess að leggja slíkt mál undir atkvæði þjóðarinnar. Ég held að það hljóti að vera á hverjum tíma ákvörðun ríkisstjórnar að fara af stað með þjóðaratkvæðagreiðslu til að vinna að framgangi einhvers máls sem hún sjálf hefur áhuga á. Ég hef alltaf haft fullan skilning á því þegar ríkisstjórnir sem eru samsettar af stjórnmálaflokkum sem hafa engan áhuga á því að ganga í Evrópusambandið kæra sig ekki um að láta kjósa um það, hver svo sem úrslit þeirrar atkvæðagreiðslu kynnu að verða.