Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[17:27]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna greinir þá ríkisendurskoðanda á við ýmsa aðra fræðimenn eins og t.d. Tryggva Gunnarsson. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sammála þessu mati ríkisendurskoðanda. Það er bara þannig. Það þýðir ekki að ég hafi vantraust á honum eða neitt þess háttar. Það bara þýðir að ég er ekki sammála þessu og ég tel að það hljóti að þurfa að skoða hæfi kaupenda og þá er ég ekki bara að tala um föður fjármálaráðherra heldur alla þá sem ég rakti hérna áðan, sem voru stórir gerendur í hruninu og í aðdragandanum að því öllu. Og allt þetta fólk bara kaupir sig aftur inn í banka eins og ekkert sé. Það er nú ekki einu sinni hægt að stofna bankareikning, venjulegan bankareikning, án þess að þurfa að fara í gegnum alls konar varnir gegn peningaþvætti. En hér er bara hægt að koma og kaupa banka eins og ekkert sé og það er enginn að velta fyrir sér hæfi. Erum við í alvörunni að tala um að það sé í lagi og það sé eðlilegt?