Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 70. fundur,  28. feb. 2023.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. .

784. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir sína ræðu þó að ég taki ekki undir margar þær fullyrðingar sem þar komu fram. Mig langar aðeins að tala um rannsóknarnefndir. Mér finnst fulltrúar stjórnarandstöðunnar fara kannski full glannalega með staðreyndir um t.d. muninn á heimildum Ríkisendurskoðunar annars vegar og rannsóknarnefnda hins vegar, að það sé himinn og haf þar á milli. Ríkisendurskoðun hefur aðgang að öllum gögnum sem máli skipta og getur krafist upplýsinga og gagna sem geta haft þýðingu við störfin, bara svo því sé algjörlega haldið til haga. Rannsóknarnefnd myndi að því leytinu til bæta litlu við, bara svo það sé sagt, fyrir utan að skipun rannsóknarnefndar er úrræði sem ber einungis að nota ef einsýnt er að ekki er unnt notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði sem meiri hlutinn telur að hafi verið nýtt þar sem þetta mál er upplýst.

Mig langar í seinni hluta fyrra andsvars míns að segja að ég hef heyrt hv. þingmann fara áður með þá skoðun sína að það hafi verið rannsóknarnefnd sem var lykilatriðið í því að það upplýstist um hverjir stóðu að baki kaupum á Búnaðarbankanum. Þetta er ekki rétt. Rannsóknarnefnd komst ekki að þessu þrátt fyrir allar sínar heimildir. Það var uppljóstrari, ef það er orðið yfir „whistle blower“, forseti, sem kom fram einn og sér með þær upplýsingar sem urðu þess valdandi að það var sett önnur rannsóknarnefnd af stað til að komast til botns í því máli. Það hafði ekkert að gera með heimildir rannsóknarnefndar eða Ríkisendurskoðunar eða neins annars. Þetta hefði alveg eins getað verið bara í fullkomnu tómarúmi frá öllum rannsóknum. Það steig fram aðili með upplýsingar sem ekki lágu annars fyrir og þess vegna leystist Búnaðarbankamálið. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi ekki örugglega bara óvart verið að fara rangt með en sé ekki vísvitandi að halda þessum röngu upplýsingum hérna á lofti.