153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og jafnframt samstarfið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég veit að hv. þingmaður er leikkona í grunninn og hún kom fram með ágætissýningu á því hvað við værum nú ómöguleg og vond í meiri hlutanum. Þó að Framsókn og VG væru kannski að tala fyrir mannúðlegri stefnu þá er greinilegt að sú sem hér stendur hlýtur að vera mjög ómannúðleg í öllu sem hún hefur fram að færa miðað við það sem fram kemur í þessari ræðu.

En hv. þingmaður er ekki bara leikkona heldur líka lögfræðingur. Mér fannst hv. þingmaður tala niður það nefndarálit sem hér er og tala eins og það skipti engu máli hvað standi í nefndaráliti, að það hafi ekki líka lögfræðilegt gildi þegar verið er að hnykkja á því hvað ákvæðin þýða raunverulega.

Hv. þingmaður hefur líka mikið talað um fyrsta griðland og þess vegna fannst mér, virðulegur forseti, og okkur í meiri hlutanum mjög mikilvægt að hnykkja sérstaklega á því. Ég vil beina því til hv. þingmanns að lesa einmitt það sem stendur í nefndarálitinu (Forseti hringir.) því að þær sögur sem hafa verið sagðar hér, hvort sem það er varðandi fyrsta griðland eða fjölskyldusameiningar eða annað, litast af einhverju allt öðru en er í frumvarpinu, greinargerð þess og núna í nefndarálitinu.