Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

næstu alþingiskosningar.

816. mál
[17:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Ég viðurkenni að ég fletti ekki upp ræðum úr sérstöku umræðunni sem við áttum um þetta mál á síðasta kjörtímabili. (BLG: Á þessu kjörtímabili.) Á þessu kjörtímabili, já, einmitt, þetta rennur nú allt orðið saman. Ég leyfi mér alla vega að fullyrða að þegar hv. þingmaður segir að almennt hafi verið einhver skoðun uppi þá er ég eiginlega viss um að það hafi verið ýmsar skoðanir í þeirri umræðu. Eins og ég hef sjálf bent á þá eru mörg nágrannalönd okkar með haustkosningar og ráða eigi að síður við það að undirbúa fjárlög. Það er þá oft þannig að rammi fjárlaganna liggur nokkuð skýr fyrir fyrir kosningar og þar eru ekki endilega teknar stórar stefnumótandi ákvarðanir. Það reynist þeim alla vega ekki vandamál.

Ég hef í sjálfu sér ekkert mikið meira um fyrirspurnina að segja annað en það að samkvæmt bæði stjórnarskrá og kosningalögum er kjörtímabilið fjögur ár og almennar reglulegar þingkosningar eiga að fara fram við lok kjörtímabils. Að öllu óbreyttu fara því fram kosningar í síðasta lagi 25. september 2025. Eins og hv. þingmaður veit þá getur forsætisráðherra leitað atbeina forseta Íslands til að rjúfa þing fyrir þann tíma. Allir hv. þingmenn þekkja regluverkið í kringum það, með hvaða fyrirvara það þarf að vera. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að boða til kosninga áður en kjörtímabilið er á enda. Að öllu óbreyttu ættu þessar kosningar því að fara fram í september 2025. Það ætti í fyrsta lagi að gefa þeirri ríkisstjórn sem tekur við nægan tíma til þess að undirbúa fjárlög. Í öðru lagi er mikilvægt að ræða hvað þarf til að það geti gengið með þeim hætti að sem snurðulausast sé, af því að ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt að kosningar trufli ekki fjárlagavinnu.

Ég nefndi hér áðan nágrannalönd. Noregur og Svíþjóð eru að jafnaði með kosningar að hausti og ráða, eins og ég segi, vel við bæði þau verkefni að kjósa og undirbúa fjárlög. Danir geta haft kosningar hvenær sem er á árinu og við þekkjum það þaðan að til þeirra er oft boðað með mjög skömmum fyrirvara. Finnar eru með kosningar að vori. Þannig að ég ítreka það sem ég hef örugglega sagt hér í síðasta samtali okkar að ég tel ekkert náttúrulögmál í þessu. Ég meira að segja man að ég fletti upp veðurupplýsingum að hausti og vori fyrir þessa síðustu umræðu okkar og komst að því að veðrið var síst verra að hausti en eða vori en það getur alltaf verið mjög slæmt þannig að það er mjög erfitt að miða kosningar við veður eins og einhverjir hv. þingmenn nefndu. Ég segi það hér að ég skil alveg umræðuna en vil bara ítreka að engin ákvörðun hefur verið tekin um annað en að kosningar verði að hausti 2025. Ég lýsi mig reiðubúna til samtals um það hvernig fjárlagagerð geti farið sem snurðulausast fram verði kosningar að hausti og ítreka að verði breyting þar á mun ég að sjálfsögðu eiga um það samtal við formenn flokka hér á þingi.