Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

þrepaskiptur skyldusparnaður.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður greinir stöðuna fyrst þannig að Seðlabankinn standi einn í verkinu og hins vegar sé það ríkisstjórnarinnar að bregðast við. Þessi hugmynd sem er hér nefnd og reifuð, um þrepaskiptan skyldusparnað, sýnir hins vegar að það eru fleiri þættir sem ráða hér úrslitum. Ég held að hugmyndin um þrepaskiptan skyldusparnað sé alls ekki galin og að hún geti komið að góðum notum við aðstæður eins og þessar. Það þyrfti hins vegar að fara mjög vandlega yfir það hvernig það yrði útfært. Við skulum hafa það í huga í þessu sambandi að það standa yfir kjaraviðræður, kjarasamningar hafa verið opnir og það er stutt í næstu lotu o.s.frv. Það skiptir máli. En bara það að hugmyndin komi fram sýnir að það eru undirliggjandi þættir sem skipta máli hérna, og birtast okkur í mikilli einkaneyslu, sem er það að laun hafa hækkað langt umfram framleiðnivöxt á undanförnum árum.

Launahækkanirnar heilt yfir síðustu tvö árin eru einfaldlega of miklar. Með því er ég ekki að segja að menn hafi í kjarasamningum hækkað allt of mikið heldur hefur spennustigið verið þannig að það hefur orðið töluvert mikið launaskrið og það hefur verið skortur á mannafli í samfélaginu. Það hefur hins vegar ekkert hjálpað að samið hefur verið um þó nokkuð miklar launahækkanir.

Þessi greining hjá hv. þingmanni sýnir bara nákvæmlega að það er vinnumarkaðurinn sem hefur verið að taka of mikið til sín og það gæti verið skynsamlegt að taka til hliðar þann ávinning sem vinnumarkaðurinn hefur með þessari hugmynd um þrepaskiptan skyldusparnað. Síðan er spurt um það hvort það komi ekki fleira til greina og ég hef verið að rekja það að auðvitað verður ríkið að halda aftur af sér og finna leiðir til að nýta fjármunina betur, auka hagkvæmni og skilvirkni í opinberum rekstri. (Forseti hringir.) Það er eitthvað sem við verðum að gera og við munum stilla upp áætlun sem sýnir að við meinum það sem við erum að tala um.