Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

afhending gagna varðandi ríkisborgararétt.

[14:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég segi bara eins og frændi minn: Það er fyrst gaman þegar maður veit að gagnaðilinn hefur rangt fyrir sér. Varðandi það að gögnin séu ekki til — við skulum ímynda okkur að gögnin séu ekki til, hæstv. fjármálaráðherra. Við skulum líka lesa 1. mgr. 51. gr. þingskapa, með leyfi forseta:

„Ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum, þ.m.t. sjálfstæðum stjórnvöldum, eða að teknar verði saman upplýsingar út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarmanna þess efnis eins skjótt og unnt er …“

Þessar upplýsingar voru aldrei teknar saman. Af hverju? Af því að hæstv. dómsmálaráðherra var að grauta saman stjórnsýslumeðferð fyrir Útlendingastofnun um ákvörðun um ríkisborgararétt og undirbúningi undir löggjafarstarf. Hvaða löggjafarstarf var það? Jú, svo að Alþingi Íslendinga gæti sett lög um ríkisborgararétt. Það tókst ekki vegna þess að þessar upplýsingar voru ekki teknar saman skv. 1. mgr. 51. gr. (Forseti hringir.) Svo einfalt er þetta mál. Það var verið að brjóta þetta þingskapaákvæði eins og enginn væri morgundagurinn. Og svo kemur fjármálaráðherra og segir að við skiljum ekki málið og að við höldum ekki ró okkar. Þetta snýst ekki um gögnin, þetta snýst um upplýsingar.