Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

afhending gagna varðandi ríkisborgararétt.

[14:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég átti nú satt best að segja ekki von á því að þingmenn stjórnarmeirihlutans færu við að vefengja þetta skýra lögfræðiálit, það er svo skýrt. Það liggur alveg fyrir hvernig við eigum að bera okkur að í framhaldinu. Nú er það þannig, eins og hér hefur komið fram, að þetta í sjálfu sér snýst ekki um lögin um ríkisborgararétt. Þetta snýst um það hversu langt við ætlum að leyfa framkvæmdarvaldinu, ráðherra, að taka ákvörðun um það hvernig Alþingi sinnir sínum störfum. Þetta snýst um það hvort við ætlum að leyfa framkvæmdarvaldinu, ráðherra, að koma í veg fyrir það að Alþingi geti farið eftir stjórnarskránni. Þetta snýst um það að við stöndum vörð um rétt þingsins og núna er það auðvitað þannig að við getum leikið okkur með þá hugsun að ef við ætlum að gera lítið úr þessu máli, rétt eins og stjórnarþingmenn og hæstv. dómsmálaráðherra er að gera hér, hver er þá staðan? Hvar annars staðar geta þá ráðherrar sagt: Ég er ekki sammála því hvernig þingið er að vinna þetta, þið fáið ekki upplýsingar. Ætlar Alþingi Íslendinga að gera þetta svona? Ég er ekki sammála því, (Forseti hringir.) þið fáið ekki upplýsingarnar. Þetta er auðvitað staða sem þjóðþing getur ekki verið í,(Forseti hringir.) hvorki hér né í öðrum löndum.