Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[10:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tók fyrr í vetur til skoðunar samskipti dómsmálaráðherra við Útlendingastofnun annars vegar og allsherjar- og menntamálanefnd hins vegar. Ástæða þeirrar skoðunar voru ummæli ráðherrans um að hann hefði gefið Útlendingastofnun fyrirmæli er varða afhendingu gagna og upplýsinga til hv. allsherjar- og menntamálanefndar vegna veitingar ríkisborgararéttar, en eins og kunnugt er hefur verið tekist á um afhendingu gagnanna um nokkurra missera skeið og ljóst að ráðherra hefur ekki orðið við beiðnum þingnefndarinnar um gögn með þeim hætti sem nauðsynlegt er og áratugahefð er fyrir.

Forseti. Nú kann einhver að halda að hér sé smámál á ferðinni, mál sem varði hvorki almenning né þingheim. Það er fjarri lagi. Þess vegna óskaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eftir minnisblaði frá skrifstofu Alþingis um samspil 2. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1952, um veitingu ríkisborgararéttar, og 1. mgr. 51. gr. þingskapalaga. Þingskapalögin eru lagaramminn um allt okkar starf á löggjafarsamkomunni, lög sem öllum ber að hlíta sem kosnir eru til Alþingis. Í minnisblaðinu er reifað hvort lög um veitingu ríkisborgararéttar feli í sér sérreglu sem túlka megi þannig að hún gangi framar ákvæðum þingskapalaga. Í stuttu máli er niðurstaða lögfræðinga og skrifstofu Alþingis að svo sé ekki og af því leiðir að dómsmálaráðherra beri líkt og öðrum að afhenda þingnefndinni umbeðin gögn og upplýsingar innan tilskilins frests, sem er sjö dagar.

Það skal tekið fram af þessu tilefni að stór hluti þingmanna hefur aldrei verið í neinum vafa um túlkun 51. gr. á meðan á þessum undarlegu samskiptum við ráðuneytið hefur staðið. Í minnisblaðinu segir, með leyfi forseta:

„Alþingi fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar og svo hefur verið frá gildistöku stjórnarskrár konungsríkisins Íslands, nr. 9/1920, sbr. 64. gr. hennar. Í skýringum við ákvæðið sagði að rétt þætti að taka það beint fram að útlendingur gæti ekki öðlast ríkisborgararétt nema með lögum. Með setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar árið 1944 var þessu ákvæði viðhaldið.“

Allt til ársins 1998 var ríkisborgararéttur aðeins veittur með lögum en með breytingu á stjórnarskipunarlögum árið 1995 var löggjafanum veitt svigrúm til að fela stjórnvöldum að annast veitingu ríkisborgararéttar en jafnframt alveg skýrt að löggjafinn gæti beitt báðum aðferðunum. Þetta var áréttað með breytingum árið 2007 og hnykkt á þeirri meginreglu að valdheimildir til veitingar íslensks ríkisfangs séu að meginstefnu hjá Alþingi og undirstrikað forræði þingsins á málaflokknum með því að heimild ráðherra til veitingar ríkisborgararéttar var markaður skýr rammi, svo aftur sé vitnað beint í minnisblaðið.

Forseti Alþingis fer með forræði á veitingu ríkisborgararéttar. Á því leikur enginn vafi og því fyrirkomulagi verður aðeins breytt með lögum. Það skaut því skökku við að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi verið tilkynnt með bréfi frá dómsmálaráðuneytinu, 1. júní 2021, að frá og með haustþingi yrði tekið upp breytt verklag Útlendingastofnunar og umsóknir sem bærust til Alþingis nytu ekki lengur forgangs í afgreiðslu stofnunarinnar. En hafa skal í huga að áratugahefð er fyrir samskiptum þingnefndarinnar og stofnunarinnar vegna veitingar ríkisborgararéttar tvisvar á ári.

Forseti. Með breytingum á þingskapalögum árið 2011 var lögfest sú meginregla að Alþingi ætti aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum sem væru nauðsynlegar til þess að þingið gæti gegnt hlutverki sínu samkvæmt stjórnarskrá. Og þar, forseti, erum við komin að kjarna málsins. Þetta mál snýst um fortakslausan rétt Alþingis til upplýsinga frá framkvæmdarvaldinu. Lög um veitingu ríkisborgararéttar fela ekki í sér sérreglu hvað þetta varðar. Stjórnskipulag Íslands byggir á þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hver þessara greina er sjálfstæð í störfum sínum en í landinu okkar er líka þingræði, eins og fram hefur komið, sem þýðir að framkvæmdarvaldið starfar í umboði meiri hluta Alþingis alla jafna. Með öðrum orðum, hver einasti ráðherra sem situr í stjórn Katrínar Jakobsdóttur situr í umboði sérhvers þingmanns Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Forseti. Vantrauststillagan sem hér er til umræðu, og er lögð fram af formönnum þingflokka Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Flokks fólksins og Pírata, er lögð fram af ríkri ástæðu og að vandlega athuguðu máli. Ráðherrum í ríkisstjórn Íslands ber að fara að lögum líkt og öðrum borgurum í þessu landi. Mér er ekki kunnugt um að staða sem þessi hafi áður komið upp í samskiptum þingnefnda við ráðherra og ráðuneyti eða undirstofnanir þeirra. Það er umhugsunarvert. Ef afleiðingarnar verða engar fyrir hæstv. dómsmálaráðherra skapar það hættulegt fordæmi í samskiptum Alþingis og Stjórnarráðsins, fordæmi sem vegur að sjálfstæðum rétti löggjafans til að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga fyrir störf sín og ákvarðanir. Þetta mál snýst um stjórnfestu, gagnsæi, lýðræðisleg vinnubrögð sem standast lög. Það snýst um sjálfstæði löggjafans og varnir Alþingis gegn gerræði framkvæmdarvaldsins. Það snýst sem sagt um grundvallaratriði í stjórnskipun lýðveldisins Íslands. Þess vegna á hið háa Alþingi engan annan kost en að samþykkja vantraust á dómsmálaráðherra.