Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[13:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er margt í þessari ræðu sem þarf að ræða aðeins betur varðandi aðhaldið. Ég sé ekkert rosalega mikið aðhald í þessari fjármálaáætlun þegar maður rekur tölurnar. Jú, jú, það eru einhverjir milljarðar hér og þar í þeim verkefnum ríkisins þar sem umsvifin eru minnst, ekki í skóla-, heilbrigðis- og velferðarmálum, sem er bara mjög eðlilegt, þannig að aðhaldið, aukaprósentið, kemur á allt hitt þar sem minnstu umsvif ríkisins eru og í raun varla hægt að kalla það aðhald. Ég er alls ekki ósammála því að velferðarkerfunum og svoleiðis málefnum sé hlíft hvað það varðar, það er ekki málið. Ég er bara ósammála því að hægt sé að kalla það aðhald að hækka þessa aðhaldsprósentu um eina prósentu á hinum litlu málefnasviðunum, og velti fyrir mér hvað það þýðir í heildarsamhengi þess hver lögbundin verkefni eru, hvort við séum þá að ná að sinna lögbundnum verkefnum á þeim sviðum eða ekki.

Hv. þingmaður talar um að við séum hérna að reka fyrirtæki. Þetta er dálítið hvimleið skoðun sem ég held að við verðum aðeins að fara að hætta með hérna. Það er ekki rétt að við séum að reka fyrirtæki. Það er mjög ónákvæm leið til þess að lýsa starfsemi hins opinbera sem hefur gjaldmiðil sem það höndlar með, sem fyrirtæki hafa almennt séð ekki. Við erum að reka efnahagskerfi þar sem gjaldmiðillinn er dálítil þungamiðja. Þannig að samanburðurinn á milli fyrirtækja og ríkisins er ekki góður þar sem ríkið er með gjaldmiðil sem er bara of mikið til að það að sé handhægt að gera þann samanburð.

Það var mjög áhugavert sem hv. þingmaður sagði, að vafalaust gætum við gert margt mun betur. Ég er mjög sammála því, það er ýmislegt sem gætum gert mun betur. Ef fullyrt er að þessi fjármálaáætlun eigi að stuðla að einhvers konar aðhaldi (Forseti hringir.) og lækka vexti og verðbólgu væri það það minnsta sem við gætum gert að útskýra það, af því að það vantar bara í þessa fjármálaáætlun.