Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:25]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það eru jákvæð tíðindi í fjármálaáætlun að við stefnum að því að ná markmiðum okkar jafnvel hraðar en til stóð og til að mynda að frumjöfnuður náist strax á yfirstandandi ár, sem eru gríðarlega jákvæð skilaboð inn í verðbólguvæntingar framtíðarinnar og slá hana væntanlega niður. Aftur þá ætla ég ekki að fara að tjá mig um einstök sveitarfélög en af þessu 21 sveitarfélagi er aðeins eitt sem óskaði eftir aðstoð ríkisins, þ.e. eftirlitsnefndarinnar, og það er Sveitarfélagið Árborg og við brugðumst vel við því. Hin 20 eru væntanlega sjálf að vinna í sínum málum. Ég trúi því og treysti að svo sé. Eftirlitsnefndin hefur ekki neinar frekari heimildir. Það getur vel verið að við ættum að íhuga það hérna á þinginu að eftirlitsnefndin hefði frekari heimildir þegar við förum að skoða fjármálareglur sveitarfélaga, hvort þær eigi að vera skýrari og skarpari

Við höfum verið í starfshópum með sveitarfélögunum og þar hafa verið mjög misvísandi sjónarmið. Ríkismegin höfum við talið að það væri betra að vera með skýrari og afmarkaðri fjármálareglur. Sveitarfélagamegin hafa þau bent á að þeim eigi að vera treystandi til að meta það sjálf. En þetta er vinna sem er í gangi enn þá. Eins og staðan er núna þegar við erum búin að taka úr sambandi þessar reglur þá er eðlilegt að við séum ekki með neinar heimildir akkúrat á meðan.

Varðandi síðan samstæðureikningsskil Reykjavíkurborgar í tengslum við félagsbústaði, sem hv. þingmaður kom hérna inn á í kjölfarið, þá er það þannig að fulltrúar stjórnvalda áttu fund með ESA um málefnið sumarið 2022. Í kjölfar þess fundar hefur ESA ekki gert frekari reka að því máli en eftirfylgnibréf ESA bendir til að stofnunin hafi fallist á þær skýringar sem voru gefnar af hálfu stjórnvalda á fundinum. Formlegt lokunarbréf hefur þó ekki borist. Það er rétt líka að geta þess að ársreikningareglur eru ekki í ráðuneyti innviða.