Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég held að við getum gert það og ég nefndi það aðeins fyrr í dag að eitt af því sem við gætum gert betur í er að fjármagna enn betur almenningssamgöngur varðandi flugið. Þá horfi ég mjög til þess að þetta varaflugvallargjald, sem vonandi klárast hér í þinginu í vor, muni gjörbreyta uppbyggingunni þar. Loftbrúin, sem er stuðningur við þá sem lengra búa hérna frá höfuðborgarsvæðinu, hefur sýnt sig að virkar. Ég er nýlega búinn að sjá nýja ferðavenjukönnun sem var síðast gerð 2019 og var gerð núna í fyrra og þar eru ótrúlega jákvæðir hlutir að gerast. Þrátt fyrir að umferð á vegum hafi vaxið umtalsvert, auðvitað vegna ferðaþjónustunnar og aukins fjölda ferðamanna en líka hagvaxtarins í samfélaginu, hefur daglegum ferðum fækkað um allt land sem er örugglega hluti af því að fólk vinnur eitthvað meira heima og er kannski líka farið að horfa til annarra hluta. Ég sé alveg fyrir mér að við séum farin að sjá teikn á lofti um að við getum farið að spila með öllum þessum jákvæðu hlutum sem við höfum verið að búa til og reyna þannig að ýta undir þá.

Síðan ætla ég að bæta við, það sem ég sleppti að nefna áðan, varðandi fjármögnun höfuðborgarsáttmálans og þá vinnu sem hér er nefnd. Það er vinna sem er í gangi í svokallaðri verkefnastofu milli fjármálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins og ég bind mjög miklar vonir við að sú vinna skili sér hratt og vel og þannig verði tekjugrunnur þessa sáttmála tryggður, aukinheldur með þróunarvinnunni sem er um Keldur og Keldnaholtslandið þannig að við getum, þegar aðeins betur árar í efnahagslífinu, farið að spýta aftur í. En ég ítreka einnig að framkvæmdastigið í landinu er í ágætu horfi þrátt fyrir allt.