Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:50]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Já, það er stórsókn. Sjónarmið geta auðvitað verið mismunandi, en það er að sjálfsögðu talsverð stórsókn að sjá fyrir sér að það þurfi að byggja einhverja 10–12.000 m² af byggingum svo hægt sé að þjónusta. Farið hefur verið af stað með slíka opinbera kynningu og umræðu og í fjármálaáætlun eru vísbendingar um að hægt sé að leggja af stað í þá vinnu. Ég held ég hafi nefnt hér í ræðu minni eða fyrsta svari að um helmingur allra fermetra í eigu ríkisins, sem eru eitthvað um 500.000 m², séu í þessu ráðuneyti, eða yfir 250.000 m² og mjög stór hluti í framhaldsskólunum. Því held ég að það sé stórsókn að sjá fyrir sér að við verðum í lok þessarar fjármálaáætlunar komin í 35%, við höfum aldrei nálgast það áður. Ef við horfum á Norðurlöndin þurfum við að ná 40% og gætum kannski gert það fyrir árið 2035 ef þróunin heldur áfram í þessa átt.

Á næstu tíu árum er talið að bóknámsnemum muni fækka um 2.500 en starfsnemum fjölga um 1.700, árgangarnir eru aðeins minnka og framboðið er ekki nægjanlegt í dag. Húsakosturinn er ekki fyrir hendi og því þarf stórsókn til að geta staðið undir þessu. Svo ég hjakki nú aðeins í því að þetta sé stórsókn; þótt 1 eða 2% séu kannski ekki svakalega mikið þá er rétt, eins og hv. þingmaður nefndi, að við höfum aldrei séð annað eins hlutfall og kannski aldrei eins marga. Sem betur fer er vaxandi áhugi.